Skoðun

Sykurspeni fótboltans

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
„Ég hélt með Íslendingum,“ hvíslaði Englendingurinn að mér eftir hinn eftirminnilega sigur gegn Englandi. Ég fylltist stolti. Fannst svalt að geta kallað mig Íslending. Heimsbyggðin hélt með okkur og gapti yfir kjarki og krafti víkingastrákanna.

Árangur íslenska karlalandsliðsins fær hárin til að rísa og fangar auglýsingin „Saman með Coca-Cola“ ágætlega tilfinninguna. Undir takti víkingaklappsins víðfræga sjáum við sveitasamfélag í stórbrotnu landslagi, landsmenn kljást við harkalegt veðurfar, hreystimenni taka á því og börn hylla strákana okkar. Og Coca-Cola er aldrei langt undan.

Þá rísa hárin hjá mér aftur – en ekki af góðu. Að tengja heimsins hraustustu íþróttamenn við gosdrykk sem veikir okkur er furðulegt. Coca-Cola hefur auglýst á HM síðan 1950 og hefur tryggt sér samning við FIFA til ársins 2030.

Pepsi lætur sitt ekki eftir liggja og merkir sína gosdrykki með frægustu fótboltastjörnum heims. Messi fær 230 milljónir og Gylfi væntanlega góða summu.

Allt hefur þetta sinn tilgang. Coca-Cola og Pepsi fá fleiri viðskiptavini, KSÍ og fótboltahetjurnar væna upphæð í vasann og við almúginn sykursýki, hjartaáföll, þvagsýrugigt, tannskemmdir og stærri björgunarhring um mittið! Fyrir hvern 230 ml sykurdrykk sem barn sýpur á dag aukast líkurnar á að það verði of feitt um 60% og ef þú drekkur hálfan lítra af gosi á dag er hætta á að þú þyngist um 11 kíló á ári.

Það væri óskandi að KSÍ klippti á strenginn við gosdrykkjafyrirtækin og hætti að hvetja ungmenni þessa lands til að leggjast á sykurspena. Víkingastrákarnir eru til fyrirmyndar – gosdrykkir eru það ekki.


Tengdar fréttir

Sjáðu stjörnum prýdda auglýsingu markmannsins

Þúsundþjalasmiðurinn og landsliðsmarkmaðurinn Hannes Þór Halldórsson leikstýrði nýrri auglýsingu Coca-Cola, sem framleidd var fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×