Þriðja frumraun Guðmundar Guðmundssonar sem þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handbolta endaði með tveggja marka tapi gegn Norðmönnum í Gulldeildinni, fjögurra þjóða æfingamóti sem fram fer í Noregi.
Íslenska liðið var undir mest allan leikinn en strákarnir geta þó farið nokkuð sáttir frá borði í dag þar sem liðið stóð vel í Norðmönnum og spilaði að mestu leiti vel. Sex nýliðar voru í hópnum hjá Guðmundi og fengu þeir allir tækifæri í dag nema einn, Teitur Örn Einarsson, og nýttu það flestir mjög vel.
Bestu innkomuna átti þó án efa Selfyssingurinn ungi Haukur Þrastarson. Hann kom inn í seinni hálfleik fyrir Gísla Þorgeir Kristjánsson, sem náði ekki að sýna mikið í dag, og var ekki lengi að setja sitt fyrsta landsliðsmark. Nokkrum mínútum seinna hafði hann bætt öðru marki og stoðsendingu við og þriðja markið kom eftir glæsilegt gegnumbrot. Frábær innkoma hjá hinum 16 ára Hauki.
Elvar Örn Jónsson og Ragnar Jóhannsson skoruðu einnig sín fyrstu landsliðsmörk í leiknum í dag, þeir voru báðir með tvö mörk. Ragnar fékk að spila þó nokkuð í leiknum og stóð sig heilt yfir nokkuð vel þó hann hafi tapað boltanum nokkrum sinnum.
Besti maður Íslands var þó Arnór Þór Gunnarsson. Hann skoraði 8 mörk úr 10 skotum og dró íslenska liðið áfram á herðum sér. Ekki gekk eins vel hjá Björgvini Páli Gústavssyni sem hefur oft átt betri leiki í landsliðstreyjunni en hann var með 27 prósent markvörslu. Viktor Gísli Hallgrímsson fékk að koma inn og reyna að verja eitt vítaskot en það gekk ekki. Þá var Aron Pálmarsson ekki heldur upp á sitt besta né Bjarki Már Elísson.
Varnarleikur Íslands var oft á tíðum ekki upp á marga fiska og náðu Norðmenn að galopna vörnina trekk í trekk. Þá hjálpaði ekki til að dómarar leiksins voru duglegir að blása í flautuna og senda menn út af, bæði lið voru einum leikmanni færri í samtals 10 mínútur. Á köflum vantaði aðeins upp á áræðni í sóknarleik íslensku strákanna og þá fóru nokkur dauðafæri forgörðum. Heilt yfir var þó leikur íslenska liðsins þokkalegur og lítur liðið vel út.
Næsti leikur liðsins í Gulldeildinni er gegn Danmörku og hefst hann klukkan 13:30 á laugardaginn, 7. apríl. Vísir verður með beina textalýsingu frá leiknum.