Erlent

Twitter lokar aðgöngum sem nota nafn Elon Musk

Sylvía Hall skrifar
Elon Musk hefur verið skotmark bæði svindlara og grínista á Twitter upp á síðkastið.
Elon Musk hefur verið skotmark bæði svindlara og grínista á Twitter upp á síðkastið. Vísir/EPA
Notendur sem hafa nafn Elon Musk í notendanafni sínu geta átt von á því að Twitter-reikningum þeirra verði lokað.  

Fyrirtækið hóf að gera þetta eftir að nokkrir notendur byrjuðu að nota nafn frumkvöðulsins í því skyni að fá aðra notendur til að senda sér rafmyntir. Þá gátu notendur svarað tístum Musk, notað nafn hans og mynd og látið það líta út fyrir að Musk sjálfur hafi skrifað tístið.

Tístin voru yfirleitt á þann veg að notendur voru látnir halda að þeir gætu hagnast á nýrri tækni ef þeir borguðu ákveðna upphæð í rafmynt á uppgefinn reikning.

Þetta hefur vakið mikið umtal á meðal notenda samfélagsmiðilsins, en margir hafa kvartað undan því að Twitter leyfi hatursorðræðu að viðgangast án inngrips.

Þá segja þeir það vera kaldhæðið hve fljótt fyrirtækið var að loka aðgöngum með nafni Musk í, sem margir hverjir voru grín, en bregðast ekki við ábendingum um ærumeiðingar eða því sem margir segja vera „nasistalega“ orðræðu.







Talsmaður Twitter segir í samtali við Huffington Post að þau reyni eftir bestu getu að koma í veg fyrir falsaðganga og slæma hegðun á síðunni. Þá hafi þau ákveðið að bregðast við notkun á nafni Musk vegna þess að margir hverjir reyndu að fá peninga frá fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×