Kennarafélag Verkmenntaskóla Austurlands hefur þungar áhyggjur af stöðu mála vegna uppsagnar núverandi skólameistara við skólann.
Í bréfi sem félagið sendi menntamálaráðuneytinu í síðustu viku segir að starf skólameistara við skólann hafi enn ekki verið auglýst þrátt fyrir þrýsting frá núverandi skólameistara, Elvari Jónssyni, á ráðuneytið.
Félagið er ósátt við vinnubrögðin þar sem núverandi skólameistari tilkynnti uppsögn sína fyrir rúmum tveimur mánuðum. Eins og staðan er í dag muni kennarar og starfsfólk byrja næsta skólaár án skólameistara.
Kennarafélagið skorar því á ráðuneytið að auglýsa stöðuna strax svo nýr skólameistari hafi tækifæri til þess að komast inn í nýtt starf áður en kennarar og annað starfsfólk mætir til vinnu í ágúst.
„Svíður það okkur kennurum og starfsmönnum að sjá stöður skólameistara auglýstar við Fjölbrautaskólann við Ármúla og Menntaskólann í Hamrahlíð, en ekkert gerist í málum okkar skóla,” segir í tilkynningunni.
Skora á ráðherra að auglýsa stöðu skólameistara
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
