Skoðun

Hrekkjavakning

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Hópefli elur á hatri og sundrungu og er skýrasta dæmið um að vegurinn til vítis er frá fyrsta skrefi varðaður góðum áformum.

Flokkshollusta er fyrirtaksdæmi um hversu mannfjandsamlegt og hugsjónalaust hópefli er í eðli sínu. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eru saman í ríkisstjórn, þið vitið?

Hópeflisdagar eru annað ömurlegt dæmi enda ógnvekjandi hversu auðvelt er að láta mannkyn virkra í athugasemdum troða sig út af rjómabollum einn daginn, gefa blóm, éta sér til óbóta af söltuðu kjöti eða graðga í sig hlandleginni skötu.

Hrekkjavakan er eini heilbrigði hópeflisdagurinn vegna þess að hún er alvöru karnival sem ruglar bæði öfgahægribullurnar sem og ringlaðan rétttrúnaðinn til vinstri.

Þetta er fjölþjóðleg gleði þar sem heiðni og kaþólska renna saman, rétt eins og sósíalisminn og kapítalisminn; múgurinn kallar eftir ölmusu, í ákveðnum hótunartón og þeir sem lúra á gæðunum kasta gúmmelaðinu, endurgjaldslaust, yfir lýðinn.

Á hrekkjavökunni fer allt skemmtilega liðið, sem kúgandi eingyðistrúarbrögðin fordæma, á kreik. Vampírur, nornir, mórar og skottur taka völdin og allir fá að vera með vegna þess að þegar maður er í dulargervi getur enginn dæmt mann fyrir húðlit, kynhneigð, umframkíló, trú eða stjórnmálaskoðun.

Við fáum frelsi til þess að vera við sjálf með því að vera ekki við sjálf og er ekki líklegt að manni líði betur, til dæmis sem raðmorðingja með hvíta grímu og búrhníf frekar en í gervi hugsjónalauss komma í köflóttri skyrtu eða réttþenkjandi fasista í jakkafötum?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×