Innlent

Bandaríski ferðamaðurinn áfram í farbanni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá slysstað á Suðurlandsvegi í maí.
Frá slysstað á Suðurlandsvegi í maí. Vísir
Landsréttur hefur staðfest áframhaldandi farbann yfir bandarískum ferðamanni sem grunaður er um að hafa verið valdur að banaslysi á Suðurlandsvegi í maí. Hefur maðurinn verið úrskurðaður í farbann til 11. júlí næstkomandi. Einn dómari í Landsrétti skilaði sératkvæði þar sem hann sagðist ósammála meirihluta dómenda og að ekki væru rök fyrir því að fallast á framlengingu farbanns lengur en til 30. júní.

Maðurinn var fyrst úrskurðaður í farbann til 15. júní skömmu eftir slysið og var sá úrskurður kærður til Landsréttar en staðfestur þar. Þá var úrskurður um áframhaldandi farbann yfir manninum einnig kærður til Landsréttar en hefur nú verið staðfestur.

Samkvæmt gögnum málsins er niðurstaða lögreglu sú að bandaríski ferðamaðurinn hafi ekið bifreið sinni inn á öfugan vegarhelming og í veg fyrir hina bifreiðina með þeim afleiðingum að árekstur varð.

Í fyrri úrskurði Landsréttar kemur fram að við skýrslutöku hjá lögreglu hafi bandaríski ferðamaðurinn sagst hafa ekið á sínum vegarhelmingi en bifreiðin sem á móti kom hafi virst honum stjórnlaus og komið yfir á hans vegarhelming. Hann hafi ekki getað forðað árekstri þar sem þarna sé brú á veginum og sagðist hann því ekki hafa verið valdur að slysinu.

Húsnæði LandsréttarVísir/Hanna

Vilhjálmur vill stytta farbannið

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson Landsréttardómari skilaði einn dómara sératkvæði. Þar segist hann ósammála meirihluta dómenda um forsendur úrskurðarins og niðurstöðu um tímalengd farbannsins, sem eins og áður sagði er til 11. júlí næstkomandi.

Þá gagnrýnir hann rannsókn í kjölfar slyssins. Þrátt fyrir að maðurinn hafi fyrst verið úrskurðaður í farbann strax eftir umferðarslysið var ekki óskað eftir bíltæknirannsókn á báðum ökutækjum fyrr en 22. maí síðastliðinn. Þá fengust ekki niðurstöður úr rannsókninni fyrr en 22 dögum eftir slysið. Vilhjálmur segir þessa töf á rannsókninni ekki hafa verið útskýrða eða réttlætta.

Að auki segir Vilhjálmur beiðni um framlengingu farbanns lítt rökstudda þar eð óskað sé eftir farbanninu vegna áframhaldandi rannsóknar. Ekki sé gerð skýr grein fyrir því að hverju frekari rannsókn málsins beinist.

Í ljósi þess sé ekkert því til fyrirstöðu að ljúka rannsókn málsins og taka ákvörðun um saksókn á styttri tíma en til 11. júlí. Ekki séu því sjáanleg rök fyrir því að fallast á beiðni um framlengingu farbannsins lengur en til 30. júní 2018 klukkan 12.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×