Alonso ók Honda-bíl á vegum Andretti Autosport-liðsins á Barber-brautinni í Alabama í gær. Engir áhorfendur eða fjölmiðlar fengu að vera á staðnum, að sögn Autosport.
Eftir á sagðist Alonso sérstaklega ánægður með að hafa fengið tækifæri til að prófa bílinn við allar aðstæður en brautin var blaut framan af degi. Lengi hafi staðið til að hann prófaði Indycar-bíl en tækifærið hafi ekki gefist fyrr en í gær.
„Þetta var góður dagur, skemmtilegur dagur. Ég elska að prófa nýja bíla og að prófa Indycar á [hefðbundinni braut] er nokkuð einstakt,“ sagði Spánverjinn sem hafði fram að gærdeginum aðeins ekið Indycar-bíl á risasporöskjubrautinni í Indianapolis, þá einnig með Andretti-liðinu.
Fernando puts the @FollowAndretti #29 through its paces at Barber Motorsports Park today... his first road course outing in an IndyCar. pic.twitter.com/cWMjjfXzwc
— McLaren (@McLarenF1) September 5, 2018
Ökumenn frá Evrópu hafa stundum hikað við að keppa í Bandaríkjunum vegna sporöskubrautanna (e. Oval) sem keppt er á hluta tímabilsins í Indycar. Alonso stóð sig hins vegar vel þegar hann keppti í Indy 500 í fyrra. Hann var á meðal efstu manna áður en Honda-vélin í bíl hans gaf sig undir lok keppninnar.
„Ég held að ég elski tilfinninguna í bílnum á hefðbundinni braut en ég elska hvernig maður keppir á sporöskjunum, hvernig maður tímasetur kjölsogið, umferðina og allur frammúraksturinn sem ég held að sé svolítið auðveldari á sporöskjunum þannig að ég elskaði hasarinn á brautinni í Indy 500,“ sagði Alonso.
Hér fyrir neðan má sjá myndband og viðtal við Alonso sem Indycar birti eftir tilraunaaksturinn í gær.