„Ég var nú eiginlega hættur, en þegar ég var beðinn um að halda áfram þá var svolítið erfitt að segja nei þó hlutverkið væri kannski aðeins annað,“ sagði Kári í viðtali við Guðmund Benediktsson á æfingu landsliðsins í Austurríki.
„Ég vil sjá íslenska landsliðið vinna leiki og ef þeir telja að það sé líklegra með mig í hópnum þá er ég til.“
Það er kominn nýr maður í brúnna hjá landsliðinu og ný keppni fram undan. Hvernig lýst Kára á verkefnið sem er fram undan?
„Mér líst bara vel á þetta. Þetta eru í raun tveir sénsar á að komast á EM. Við erum vanir því að það sé allt undir í hverjum einasta leik, en ef að þetta klúðrast þá erum við með riðlakeppnina til þess að bjarga því.“

„Það er nýr þjálfari og ýmislegt að breytast. Ég er kannski að taka skref til hliðar og það eru yngri menn að koma inn. Að hafa þolinmæði fyrir því að þeir nái að stimpla sig inn í liðið.“
„Vonandi kemur árangurinn strax en það getur tekið smá tíma.“
Kári var búinn að semja við uppeldisfélag sitt Víking og ætlaði að koma heim og spila í Pepsi deild karla eftir HM í Rússlandi. Hann fékk hins vegar tilboð frá tyrknesku liði sem hann tók og spilar nú í B-deildinni þar í landi.
„Þetta var svona síðasti sénsinn, aðeins að kreista aðeins meira út úr þessum ferli. Þetta er það skemmtilegt að það er erfitt að hætta í þessu,“ sagði Kári Árnason.