Sú ályktun er dregin í úttektinni að arðsemi í virðiskeðju sauðfjárbænda, það er „frá bónda til búðar“, sé óásættanleg. Bent er á að framleiðsla á kindakjöti hafi vaxið umfram innlenda neyslu undanfarin ár. Útflutningur á umframframleiðslunni hafi aukist en við núverandi aðstæður sé framleiðslukostnaður hærri en heimsmarkaðsverð og meðal útflutningsverð.
Svavar segir sum útflutningsverkefni ganga vel en önnur ekki. „Gengi krónunnar hefur haft áhrif. Það er samt þannig að ef ekki á að draga mikið saman í sauðfjárrækt, verður að vera hægt að flytja út þá hluta af lambinu sem ekki seljast hér.“ Hann segir vilja hjá bændum að skoða stofnun sameiginlegs útflutningsfyrirtækis. „Svo höfum við náð árangri í markaðssetningu fyrir ferðamenn. Neysla þeirra er að aukast.“
Meðal leiða sem nefndar eru í hagræðingarskyni er fækkun afurðastöðva og að kannaðir verði kostir þess að minnka framleiðsluna þar til jafnvægi næst milli framboðs og innlendrar eftirspurnar.

Hún segir að tillögurnar þurfi að skoða vel og hagræða þurfi alls staðar þar sem hægt er. „Við höfum lagt á það áherslu að það geti verið skynsamlegt að draga úr framleiðslunni. En það þarf líka að efla afurðastöðvarnar. Það blasa við möguleikar en það þarf að hugsa þetta með tilliti til hagsmuna bænda og neytenda.“
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, tekur undir það að fækka megi afurðastöðvum, þó þannig að eðlileg samkeppni verði tryggð.
„Framleiðslan er of mikil. Það þarf að draga úr henni þannig að við séum að framleiða fyrst og fremst fyrir innanlandsmarkað. Þótt einhver útflutningur sé eðlilegur verður áhættan sem honum fylgir að vera á ábyrgð framleiðenda sjálfra.“
Hún segist hafa efasemdir um að skynsamlegt sé að halda áfram að framleiða í stórtækum mæli fyrir erlenda markaði. „Það ætti að vera næg áskorun að halda í heimamarkaðinn og fá ferðamenn til að borða meira af okkar innlendu framleiðslu.“
Endurskoðun á samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt stendur yfir og er gert ráð fyrir að úttekt KPMG verði innlegg í þá vinnu.