Innlent

Benda á borgina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bragginn er afar umdeildur.
Bragginn er afar umdeildur. Vísir/Vilhelm
Arkibúllan, arkitektastofan sem hannað enduruppbyggingu braggans í Nauthólsvík, segir að verkið hafi aðeins verið unnið í samræmi við óskir Reykjavíkurborgar. Ábyrgð á gerð og eftirfylgni kostnaðaráætlana hafi verið Reykjavíkurborgar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef Arkibúllunnar þar sem þess er óskað að fjölmiðlar beini fyrirspurnum um enduruppbyggingu braggans til Reykjavíkurborgar.

Þar segir að eftirlit stofunnar með verkinu hafi aðeins falist í því að iðnaðarmenn fylgdu teikningum og að verkin væru sannarlega unnin.

„Það var Reykjavíkurborg sem gerði alla samninga við verktaka, ber ábyrgð á gerð og eftirfylgni kostnaðaráætlana á öllum stigum framkvæmda og ákvað að beita ekki útboðum í verkinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Verkfræðistofan Efla sendi frá sér sambærilega tilkynningu en þar segir að hlutverk Eflu við framkvæmdina hafi verið áðgjöf í burðarþolshönnun, loftræsihönnun, hönnun hita- og neysluvatnslagna, raflagnahönnun, lýsingarhönnun, brunahönnun og hljóðhönnun auk ýmissar ráðgjafar við undirbúning verksins. Efla hafi rukkað Reykjavíkurborg um 27 milljónir króna vegna þess.

Töluvert hefur verið fjallað um framkvæmdirnar í fjölmiðlum en kostnaður við þær fór úr áætluðum 155 milljónum króna í 415 milljónir. Meðal annars voru keypt strá sem gróðursett voru umhverfis braggann fyrir alls 757 þúsund krónur.

Samkvæmt svörum frá Reykjavíkurborg voru keyptar 800 grasplöntur sem hver kostaði tæpar 950 krónur. Þá nam kostnaður vegna gróðursetningar um 400 þúsundum sem gerir alls eina milljón og 157 þúsund krónur.


Tengdar fréttir

Keyptu 800 plöntur á tæpar 950 krónur stykkið

Heildarkostnaður við stráin sem plantað hefur verið við braggann í Nauthólsvík nemur yfir 1,1 milljón króna. Innri endurskoðun á framúrkeyrslu kostnaðar við framkvæmdirnar við braggann er afar stutt á veg komin. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins og menntaður garðyrkjufræðingur, segir kostnaðinn við stráin dæmigerðan fyrir braggaverkefnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×