Innlent

Vill að Ísland fordæmi blóðbaðið í Palestínu

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Logi segir Trump Bandaríkjaforseta æða um eins og mosuxa á nýlagðri tjörn
Logi segir Trump Bandaríkjaforseta æða um eins og mosuxa á nýlagðri tjörn vísir/anton brink
Búist er við enn frekari mótmælum í Palestínu í dag, réttum sjötíu árum eftir stofnun Ísraelsríkis og degi eftir að Ísraelsmenn skutu tæplega sextíu mótmælendur til bana. Formaður Samfylkingarinnar segir að Íslendingar eigi að senda skýr skilaboð um að morðin séu ólíðandi.

Í dag minnast Palestínumenn þess þegar Ísraelsríki var stofnað fyrir sjötíu árum og fjöldi innfæddra flúði heimili sín undan stríðsátökunum sem fylgdu í kjölfarið.

Þrátt fyrir blóðbaðið á Gaza ströndinni í gær, þegar ísraelskir hermenn skutu meira en fimmtíu mótmælendur til bana, er búist við að mikill fjöldi taki þátt í mótmælum í Palestínu í dag. Einnig er efnt til samstöðufunda víða um heim, þar á meðal á Austurvelli klukkan fimm í dag.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, situr fundi í Lundúnum í dag ásamt öðrum í Utanríkismálanefnd Alþingis. Hann mun óska eftir viðbrögðum ráðherra og formanns Utanríkismálanefndar við blóðbaðinu í Palestínu.

„Það er látið eins og þetta séu deilur milli tveggja landa,“ segir Logi.

„En hér er um að ræða hernám. Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að landnámið sé ólöglegt og það gilda lög og reglur, meðal annars Genfarsáttmálinn. Hér er verið að drepa fimmtíu og tvo, þar af sex börn bara í gær. Við höfum viðurkennt sjálfstæði Palestínu og fullveldi og eigum auðvitað að mótmæla þessu harðlega.“

„Mér finnst þetta skýrt dæmi um hvernig þessi ófyrirsjáanleiki Trumps í alþjóðamálum getur stuðlað að ófriði í heiminum. Hann æðir um eins og mosuxi á nýlagðri tjörn og þetta er stórhættulegt. Mér finnst að Íslendingar eigi að láta heyra í sér, að þetta verði ekkert liðið.“


Tengdar fréttir

Spennustigið hátt í Jerúsalem

Búist er við áframhaldandi mótmælum í Jerúsalem í dag, daginn eftir að 55 Palestínumenn létu lífið í átökum við ísraelska hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×