Skoðun

Náttúra eða gerviveröld í Elliðaárdal

Elsa Dóra Grétarsdóttir skrifar
Elliðaárdalurinn er einhver mesta náttúruparadís sem finnst í Reykjavík. Í miðri höfuðborg landsins renna veiðimenn fyrir laxi, umluktir kanínum sem hlaupa frjálsar um skóglendi. Það er varla orðum ofaukið að segja að um sé að ræða náttúrugersemi sem á sér enga hliðstæðu í veröldinni. En þessi einstaki dalur okkar Reykvíkinga á nú í vök að verjast sökum þess að borgarstjórn hefur gefið grænt ljós á uppbyggingu stærðarinnar glerhýsis, 13 metrar á hæð og yfir 3.800 fermetrar að flatarmáli, í miðjum dalnum. Þessi gríðarstóra bygging verður svo umlukin 8.700 fermetra lóð þar sem meðal annars verða um það bil 50 bílastæði.

Glerhýsið sem um ræðir ber heitið BioDome og mun hýsa einskonar gróðurhvelfingu. Stærð byggingarinnar gerir það að verkum að hún verður stórt og alvarlegt lýti á þessari mikilfenglegu náttúruparadís, þá mun hún jafnframt skerða útsýni íbúa í Stekkjunum og takmarka lífsgæði þeirra sem og allra borgarbúa. Jafnframt liggur það í augum uppi að talsverð ljósmengun mun verða af svo stórri glerbyggingu.

Þá kom fram á nýlegum fundi sem haldinn var á vegum Hollvinasamtaka Elliliðaárdalsins um verndun Elliðaárdalsins að til að verkefnið standi undir kostnaði þurfi um það bil 800 – 1000 manns að kaupa aðgangseyri að hvelfingunni á hverjum einasta degi, þ.e. miðað við að aðgangseyrinn sé ígildi sirka tveggja bíómiða. Ekki verður í fljótu bragði séð hvernig slík fjárhagsáætlun á að ganga upp.

Samkvæmt aðstandendum verkefnisins, á byggingin að skapa vistvænt og nærandi umhverfi. Þó svo að vissulega sé þörf fyrir uppbyggingu vistvæns og nærandi umhverfis í Reykjavík þá er með öllu óskiljanlegt hvernig nokkrum manni dettur í hug að skapa slíkt umhverfi með því að rífa niður náttúruparadís og byggja gerviveröld í staðinn. En, eins og Joni Mitchell söng um árið, þá virðist það einhvern veginn alltaf vera þannig sumir vita ekki hvað þeir eiga fyrr en það er horfið.

Elsa Dóra Grétarsdóttir.

Höfundur er íbúi í Stekkjunum og áhugamaður um verndun Elliðaárdals.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×