Styrjöldin hefur geisað í þrjú ár. Þúsundir hafa týnt lífi og rúmlega þrjár milljónir misst heimili sín. Í gær greindu samtökin Save the Children frá því að þau telji að um 85 þúsund börn hafi látið lífið vegna vannæringar í Jemen og Sameinuðu Þjóðirnar áætla að um 1.3 milljónir barna búi við alvarlega vannæringu.
„Þetta eru fyrst og fremst óbreyttir borgarar sem eru að þjást,“ segir Atli Viðar. „Það eru börn undir fimm ára aldri, eldra fólk og þeir sem eiga undir högg að sækja almennt.“

„Þetta eru ofsalega flókin átök og það er ekki fyrirséð að þeim ljúki í bráð því miður.“
Íslenska utanríkisráðuneytið tilkynnti í síðustu viku um 100 milljón króna framlag vegna neyðarástandsins í Jemen. Atli Viðar segir íslensk stjórnvöld standa sig vel miðað við önnur ríki í að vekja athygli á hörmungunum.
„Eina lausnin er í raun pólitísk lausn. Þar koma íslensk stjórnvöld inn og hafa rödd,“ segir hann. „Það má raunverulega segja íslenskum stjórnvöldum það til hróss að þau hafa tekið upp málstað hins almenna Jemena og rætt ástandið á alþjóðavettvangi. Það hefur utanríkisráðherra sjálfur gert og utanríkisþjónustan öll, því miður eitt fárra ríkja. Þarna sannast það að Ísland hefur rödd og það væri gaman að sjá Ísland beita þessari rödd enn frekar og fengið fleiri ríki í lið með sér til að beita sér fyrir því að þessari styrjöld ljúki sem allra fyrst.“

„Við höfum verið með þrjá sendifulltrúa í Jemen,“ segir Atli Viðar. „Tveir fóru til Jemen og sá þriðji í nágrannaríki að hlúa að starfsfólki Rauða Krossins sem kemur til baka.“
Hann segir að varla sé hægt að ímynda sér meira krefjandi stað til að starfa á í dag. Sendifulltrúar Rauða Krossins hafi til dæmis fundið fyrir átökunum frá fyrstu hendi.
„Þau voru lokuð niðri í byrgi í nokkra daga á meðan átök gengur yfir. Þetta eru mjög hættulegar aðstæður. Til marks um það hafa fallið tólf starfsmenn jemenska Rauða Hálfmánans og starfsmenn Rauða Krossins í þessum átökum“
Neyðarsöfnun Rauða Krossins vegna hörmungana í Jemen stendur yfir. Ef fólk sendir smáskilaboðin HJALP í síma 1900 veitir það málstaðnum 2900 krónur.