Lífið

Munnhöggvast á Twitter vegna nektarmyndar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ariana Grande og Piers Morgan.
Ariana Grande og Piers Morgan. Mynd/Samsett
Bandaríska söngkonan Ariana Grande og sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan áttu í útistöðum á Twitter í vikunni. Móðir Grande átti einnig þátt í deilunum, sem eiga upptök sín í nektarmynd af bresku stúlknasveitinni Little Mix.

Morgan er þekktur fyrir umdeildar skoðanir sínar og hefur ítrekað gagnrýnt konur fyrir að sýna of mikið hold og gera út á kynþokka sinn. Hann hélt uppteknum hætti í morgunþætti sínum Good Morning Britain á sjónvarpsstöðinni ITV í vikunni.

Sjá einngi: Piers Morgan gagnrýndur fyrir að hlutgera kollega

Hann sakaði þar hljómsveitina Little Mix um athyglissýki eftir að meðlimir sveitarinnar sátu fyrir naktir á kynningarmynd fyrir nýtt lag sveitarinnar, Strip. Á myndinni eru líkamar hljómsveitarmeðlima þaktir skammaryrðum, sem flest lúta að líkamsímynd og kynferði, sem ætlað var að endurspegla efni lagsins.

Þá bætti Morgan um betur á þriðjudag og velti því upp hvort Little Mix hefði stolið hugmyndinni af hljómsveitinni Dixie Chicks, sem sat eitt sinn fyrir á svipaðri mynd.

Í gær blandaði Joan Grande, móðir Ariönu Grande, sér svo í málið. Hún var nokkuð harðorð í garð Morgan, og setti jafnframt spurningamerki við aðdróttanir hans um meintan hugverkastuld Little Mix.

Morgan svaraði að bragði og sakaði þá einnig Ariönu Grande um að framfleyta sér á kynþokkanum.

„Ég myndi vilja að þær notuðu hæfileika sína frekar en nekt til að selja plötur. Eins og dóttir þín gerir…!“

Ariönu var þá sjálfri nóg boðið og svaraði Morgan fullum hálsi. Hún sagðist til að mynda gera út á bæði hæfileika sinn og kynverund, og það kysi hún sjálf.

„Konur geta verið kynverur OG hæfileikaríkar. Naktar og virðulegar. Það er OKKAR val.“

Þá lýsti Ariana yfir stuðningi við stúlkurnar í Little Mix – og sendi Morgan svo tóninn enn á ný, til að mynda með því að ýja að því að hann væri hræsnari.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.