Skoðun

Nú brúum við bilið!

Skúli Helgason skrifar
Borgarstjórn hefur samþykkt samhljóða tillögur um viðamikla leikskólauppbyggingu á næstu árum til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þetta eru mikil og góð tíðindi fyrir foreldra ungbarna í borginni en með þeim verður hægt að bjóða öllum 12 mánaða börnum og eldri í leikskóla innan fimm ára.

Nýir leikskólar, viðbyggingar og ungbarnadeildir

Til að brúa bilið munum við fjölga leikskólarýmum um 700-750 á næstu 5 árum. Það verður gert með því að opna fimm nýja leikskóla, í Úlfarsárdal, Miðborg, Kirkjusandi, Vogabyggð og Skerjafirði, byggja við fimm starfandi leikskóla og opna 5-6 nýjar leikskóladeildir við leikskóla þar sem eftirspurn hefur verið með mesta móti í Fossvogi, Laugardal, Grafarvogi, Grafarholti og Breiðholti.

Nú eru 14 ungbarnadeildir starfræktar við leikskóla borgarinnar og þeim verður fjölgað um sjö á ári þar til ungbarnadeild verður til staðar í öllum stærri leikskólum borgarinnar. Þær eru sérútbúnar, með hita í gólfum, leiksvæði og búnaði sem hæfir börnum frá 12 mánaða aldri.

Gengið verður til samninga við sjálfstætt starfandi leikskóla um fjölgun barna og er ráðgert að þeim fjölgi um tæplega 170 á komandi árum til viðbótar þeirri fjölgun um 80 rými sem þegar hefur orðið á þessu hausti.

Við munum áfram bæta vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla til að gera þá að eftirsóknarverðari vinnustöðum. Á þessu ári höfum við samþykkt og fjármagnað slíkar aðgerðir fyrir 1.100 milljónir með fjölgun starfsfólks á elstu deildum, auknu rými fyrir börn og starfsfólk, fjölgun undirbúningstíma, sumarstörfum ungs fólks á leikskólum o.m.fl. Við teljum að þessar aðgerðir hafi átt sinn þátt í því að mönnunarmál ganga nú mun betur en sl. tvö ár. 98 prósent allra stöðugilda eru nú mönnuð og einungis hálft stöðugildi að meðaltali ómannað á hverjum leikskóla. Þá eru mun færri börn á biðlista eftir leikskóla.

Við munum verja 5,2 milljörðum til þessarar miklu uppbyggingar og ljúka þannig því mikla átaki í leikskólamálum sem Reykjavíkurlistinn hóf fyrir aldarfjórðungi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×