Eins og frægt er, er saga kísilmálmverksmiðju United Silicon ein hörmungarsaga allt þar til Umhverfisstofnun stöðvaði rekstur verksmiðjunnar í september í fyrra. Arion banki gekk að veðum sínum í verksmiðjunni í febrúar á þessu ári og hefur síðan þá unnið að því að bjarga því sem bjargað verður. Stofnað hefur verið félag um rekstur verksmiðjunnar, Stakksberg ehf., sem hefur tilkynnt að leggja eigi fjóra komma fimm milljarða í að koma verksmiðjunni í gang.

„Hún var raunverulega van fjárfest frá upphafi, þannig að það var hreinlega kostað of litlu til við bygginguna á mannvirkinu,“ sagði Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Stakksberg ehf.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag kvaðst forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar efins að nýju félagi tækist að koma verksmiðjunni í rekstur. Þórður segir það eiganda félagsins, Arion banka, mikilvægt að skilja við verkefnið að tryggt sé að verksmiðjan starfi með eðlilegum hætti og í sátt við umhverfi sitt.
„Við höfum frá því að verksmiðjan var kyrrsett í byrjun september í fyrra og í rauninni allt fram til þessa dags lagt okkur í framkróka við það að verkefninu færustu sérfræðinga til þess að aðstoða okkur. Greina vandann og leggja mat á það hvernig verður bætt úr á þann veg að það eigi ekki að vera vandræði af þessari verksmiðju í framtíðinni,“ sagði Þórður.
Nýr eigandi verksmiðjunnar hefur boðað til íbúafundar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í kvöld og hefst fundurinn klukkan átta þar sem staðan og framtíðar möguleikar verða lagðir á borð en Þórður segir vaxandi eftirspurn efir kísilmálmi í heiminum. Í fullri stærð og fulla framleiðslugetu á verksmiðjan í Helguvík að skapað á bilinu 150-200 varanleg störf og þangað ætlar nýtt félag sér.
„Við ætlum að gera það já, vissulega. Við viljum standa að þessu verkefni þannig að í framtíðinni geti þetta fyrirtæki starfað án þess að valda íbúum Reykjanesbæjar ama,“ sagði Þórður.