Nýir meðlimir í þriggja manna forsetaráði Bosníu og Hersegóvínu voru settir í embætti í gær. Óhætt er að segja að lítill samhljómur sé innan hins nýja forsetaráðs.
Fyrirkomulagið í Bosníu er þannig að þrír menn eru kjörnir í forsætisnefndina og velur hvert þjóðarbrot í ríkinu sinn fulltrúa. Það er að segja Bosníu-Serbar, Bosníu-Króatar og Bosníumúslimar. Forsetarnir þrír skipta með sér völdum.
Milorad Dodik heitir fulltrúi Bosníu-Serba í forsetaráðinu. Sá hefur lengi rætt um að serbneski hluti Bosníu stofni nýtt, sjálfstætt ríki og er serbneskur þjóðernissinni. Hann er, samkvæmt Reuters, hliðhollur Rússum, andvígur NATO en segir aðild að ESB í forgangi.
Bosníu-Króatinn Zeljko Komsic og Bosníumúsliminn Sefik Dzaferovic eru aftur á móti sagðir hlynntir Atlantshafsbandalaginu og fjölþjóðlegri Bosníu og Hersegóvínu.
