Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir að settar yrðu 700 milljónir í að breikka veginn á Kjalarnesi á þessu ári. Eins og staðan er í dag verður ekki staðið við það.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði í fréttum Stöðvar 2 þann 4. janúar að Kjalarnesið væri hættulegur vegur og að alvarleg slys þar ættu ekki að koma á óvart. Degi áður hafði 37 ára karlmaður látið þar lífið í bílslysi.
Viðtalið við vegamálastjóra má sjá hér að neðan.
Að meðaltali fóru á bilinu 6.400 til 8.100 bílar vegkaflann frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum á degi hverjum á síðasta ári en á undanförnum áratugum hafa orðið þar banaslys og ótal alvarleg slys. Þeir sem til þekkja segja það nánast með ólíkindum að ekki hafi orðið fleiri banaslys á vegkaflanum, miðað við umferðarþunga. Eitt sé þó einu of mikið.
„Það hafa blessunarlega, miðað við allt, verið færri slys á þessum vegi en ýmsum öðrum. En þegar slys voru tíð á vegum út úr Reykjavík til Hveragerðis og Reykjaness sýndum við því skilning að það yrði að forgangsraða þeim vegum, á þeim tíma. Nú eru einfaldlega komnar upp aðstæður sem eru farnar að líkjast því sem ýtti við mönnum þegar farið var í þær og frekari bið er bara of mikil áhætta,“ segir Sævar. Það eigi þó ekki að þurfa fjölda banaslysa til að koma í veg fyrir þau í framtíðinni með sjálfsögðum úrbótum.
Boðað er til íbúafundar á Akranesi 24. janúar næstkomandi með samgönguráðherra. Sævar segir ráðherra hafa tjáð honum á fundi nýverið að ekkert væri endanlega ákveðið varðandi samgönguáætlunina og því vilji íbúar eiga samtal við ráðherra. Bæjarstjórinn býst við fjölmennum fundi en nú þegar hafa ríflega tvö þúsund manns skrifað nafn sitt á undirskriftalista sem gengur á netinu, þar sem úrbóta er krafist.
„Enda gríðarlega mikilvægt mál, ekki bara fyrir Akranes heldur Vesturland allt.“