Lífið

Ný bók frá George R. R. Martin í nóvember

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
George R. R. Martin tilkynnir útgáfu nýrrar bókar um ævintýri íbúa Westeros.
George R. R. Martin tilkynnir útgáfu nýrrar bókar um ævintýri íbúa Westeros. Vísir/Getty
Ný bók er væntanleg í nóvember frá George R.R. Martin höfundi ævintýrasagnabálksins, Söngur um ís og eld (A song of Ice and Fire), sem þættirnir vinsælu um Krúnuleikana, (Game of Thrones) eru byggðir á. Það verður þó ekki sjötta bókin í sagnabálki Söngs um ís og eld, The Winds of Winter, eins og aðdáendur höfðu vonast til.

Nýja bókin, sem hefur fengið nafnið Fire & Blood, mun fjalla um Targaryen ættina og atburði sem áttu sér stað 300 árum fyrir söguþráð Söngs um ís og eld. Martin greindi frá þessu á bloggi sem hann heldur úti og heitir „Not a blog“.

Aðdáendur fá því að snúa aftur til Westeros á þessu ári en von er á um þúsund blaðsíðna bók, þeirri fyrri af tveimur.

Í þessari bók, sem kemur út 20. nóvember, verður fjallað um alla Targaryen kóngana, frá konungsveldi Aegon I (the Conquerer) til Aegons III (the Dragonbane), og eiginkonur þeirra, börn, systkini, vini, óvini og fleiri persónur. Rithöfundurinn lofar einnig mörgum drekum, en Targaryen ættin var fræg fyrir að eiga dreka.

Kápa nýjustu bókar rithöfundarins vinsæla. Bókin mun fjalla um Targaryen ættina.Af bloggi George R. R. Martin
Bókin verður einnig myndskreytt en 75 svarthvítar teikningar eftir teiknarann Doug Wheatley munu prýða blaðsíður bókarinnar. Seinni bókin um Targaryen ættina kemur þó ekki út fyrr en eftir einhver ár samkvæmt Martin.

Aðdáendur ævintýrasagna Martin hafa lengi eftir nýrri bók frá rithöfundinum em síðasta bók, A Dance with Dragon, sú fimmta í sagnabálknum Söngur um ís og eld, kom út árið 2011. Upprunalega stóð til að The Winds of Winter, næst seinasta bókin kæmi út í lok árs 2016. Martin sagði bókina að minnsta kosti ekki koma út á þessu ári þannig að aðdáendur verða því miður að bíða lengur til að vita örlög þeirra.

Seinasta þáttaröðin um Krúnuleikana verður sýnd á næsta ári.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×