Umfjöllun og viðtöl: KR - Skallagrímur 109-93 | Góður seinni hálfleikur skilaði KR sigri

vísir/bára
Íslandsmeistarar KR byrjuðu Dominos deild karla veturinn 2018-2019 með besta móti en þeir sigruðu nýliða Skallagríms með 16 stiga mun í kvöld í DHL höllinni. Eftir smá ryð í mönnum í byrjun leiks þá losnaði um taumana og mikið var um skoraðar körfur í fyrri háfleik en varnarleikurinn sat á hakanum þó að góð varnartilþrif hafi litið dagsins ljós stöku sinnum. Staðan í hálfleik var 58-52 fyrir heimamenn og allt í járnum.

Í upphafi seinni hálfleiks náðu heimamenn upp meiri ákafa í varnarleik sínum og bjó til forskot sem var tveggja stafa og litu ekki til baka. Skallagrímur gerði sig oft líklega til þess að komast á sprett og minnka muninn en þeir höfðu ekki erindi sem erfiði enda áttu heimamenn alltaf svör við þeirra aðgerðum til að halda muninum þægilegum. Lokatölur 109-93.

Afhverju vann KR?

Þeir sýndu meiri hörku í varnarleik sínum í seinni hálfleik sem gerði það að verkum að auveldar körfur litu dagsins ljós hjá þeim þegar þeir unnu boltann af gestunum í vörninni. Þá er breidd KR-inga líklegast mun meiri en gestanna úr Borgarnesi en þegar á þurfti að halda fengu þeir stig úr öllum áttum en höfðu mikið leita að Julian Boyd sem átti stórleik. Hittni þeirra úr þriggja stiga skotum var líka ótrúleg en nánar um það síðar.

Bestu menn vallarins?

Julian Boyd hjá KR bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í kvöld. Hann sallaði 37 stigum á Skallagrím og reif niður 12 fráköst. Stigin komu í öllum regnbogans litum en hann bæði sveif í gegnum háloftin og hamraði boltanum í gegnum gjörðina sem og hann setti niður þriggja stiga skot. Hann mun líklegast reynast honum vel. Þá átti Jón Arnór Stefánsson góðar innkomur af bekknum en hlutverk hans þessa stundina er að vera sjötti maðurinn og skilaði hann 15 stigum og sex stoðsendingum á 19 mínútum í kvöld.

Hjá Borgarnesi leiddu erlendu leikmenn þeirra vagninn í stigaskori. Matej Buovac skoraði 25 stig og Aundre Jackson skilaði 23 stigum en þeir hurfu báðir dálítið í skuggann á löngum tímum í kvöld og þurfa Skallagrímur meira á þeim að halda. Eyjólfur Ásberg Halldórsson skilaði síðan flottri frammistöðu með 20 stig, fimm fráköst og átta stoðsendingum.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur beggja liða gekk illa í fyrri háfleik og sýndu hálfleikstölur það en þær voru óvenju háar. Í síðar hálfleik gekk varnarleikur gestanna illa sem og sóknarleikurinn en það var sökum meiri ákafa í varnarleik heimamanna.

Tölfræði sem vakti athygli?

Heimamenn í KR hittu ótrúlega vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Reyndu þeir 22 þriggja stiga skot og hittu úr 14. Það þýðir að 63% þriggja stiga skota þeirra rötuðu rétta leið og þegar hittnin er slík þá er erfitt að búast við nokkru úr leiknum fyrir andstæðingana.

Hvað næst?

KR-ingar fara í Keflavík næst og etja þar kappi við heimamenn og er það mjög svo spennandi leikur á pappírnum á meðað Skallagrímur þarf að taka á móti Grindavík á heimavelli. Fjósið verður mjög mikilvægur vettvangur fyrir þá ef þeir ætla sér að halda sæti sínu í deildinni í vetur.

Ingi Þór Steinþórsson: Getum ekki reiknað með Pavel Ermolinskij fyrr en við sjáum hann á æfingu

Nýr þjálfari KR er kominn aftur á heimaslóðir en hann þjálfaði KR frá 1999 til 2004 en er snúinn aftur í Vesturbæinn til að sjá um uppbygginguna eftir ansi langa og samfellda sigurgöngu KR í körfubolta undanfarin ár. Fyrsti leikurinn var fyrr í kvöld á móti nýliðum Skallagríms og var hann spurður að því hvernig tilfinningin væri að klára fyrsta leikinn í nýjum búning.

„Þetta er nú gamall og góður búningur og maður flýr ekki uppruna sinn. Tilfinningin er samt ótrúlega góð.“



Eftir jafnan fyrri hálfleik þá sigldu heimamenn fram úr en sex stigum munaði á liðunum í hálfleik en KR vann að lokum 109-93. Ingi Þór var spurður að því hvað hann hafi sagt við sína menn í hálfleik.



„Við tökum ekkert af Skallagrím, þeir voru sprækir og gerðu mjög vel hérna. Voru að skjóta boltanum mjög vel og sóttu hart að okkur en við náðum svo að stoppa fyrir smá leka og héldum síðan ákafanum út leikinn þannig að leiðir skildu en við erum kannski með örlítið meiri breidd en þeir. Við löguðum nokkur atriði varnarlega og það gaf okkur auðveldar körfur sem við nýttum okkur til að skapa sigurinn.“



Inga líst mjög vel á komandi tímabil en gerir sér alveg grein fyrir því að verkefnið er ærið enda er þetta sigursæla félag í endurbyggingu.



„Þetta er bara nýtt lið. Liðið sem í fyrra hökti að titlinum á nánast ótrúlegan hátt er farið nánast allt eða allavega hryggjarsúlan úr því. Þekkingin er hinsvegar til staðar hérna og við erum bara auðmjúk og nálgumst verkefnið þannig að við ætlum okkur að búa til gott lið og taka okkur tíma í það. Við erum raunhæf og erum ekkert að taka fram úr okkur með neitt, ætlum að láta verkin tala. Eins og staðan er í dag þá eigum við langt í land, við sýndum það seinasta sunnudag að við eigum langt í land til að vera góðir og á meðan ég og Hjalti og strákarnir erum meðvitaðir um þetta og erum að vinna í því þá eigum við eftir að vera betri.“



Að lokum var Ingi spurður út í stöðuna á Pavel Ermolinskij en ekkert hefur heyrst um það hvað hann ætlar að gera í vetur.



„Staðan hjá Pavel er í raun og veru óákveðin, hann er meiddur og ekki að æfa með okkur eins og er. Vonandi þegar lengra líður þá gerist eitthvað í þeim málum. Eins og staðan er í dag þá erum við ekki með hann í hópnum hjá okkur þannig að við getum ekkert reiknað með honum fyrr en við sjáum hann á æfingu.“

Finnur Jónsson: „Þeir skutu eins og tittlingar“

„Við komum svolítið flatir út í seinni hálfleikinn og náðum ekki að stoppa, tókum vondar ákvarðanir í sóknarleiknum hjá okkur og dass af heppni hjá þeim", sagði Finnur Jónsson þjálfari Skallagríms eftir leik og hélt áfram.

„Þeir náttúrlega skjóta eins og tittlingar og eru með tæplega 70% nýtingu í þriggja stiga skotum. Ég hef bara ekki séð annað eins. Ég veit ekki hvað Ingi hefur gefið þeim að éta í morgun“, sagði Finnur furðu lostinn.

Hann var því næst spurður að því hvort að eitthvað jákvætt væri að finna í þessum leik en sóknarleikur liðsins var á köflum stórfínn.

„Já fullt af jákvæðum hlutum sem hægt er að tína til að sjálfsögðu. Liðið er stútfullt af sjálfstrausti. Við byrjum vel og sóknarleikurinn góður á löngum köflum en við getum vissulega gert betur varnarlega enda fengum við á okkur 109 stig. Við erum nýliðar og þeir fimmfaldir meistarar þannig að það fellur sumt með þeim og annað ekki með okkur en mér fannst þetta ekki vera 16 stiga leikur. Ég er svo blindur og ruglaður á þetta enda fannst mér við vera yfir í hálfleik en þegar ég leit á töfluna þá vorum við undir og fannst mér það ekki eiga að vera þannig miðað við hvernig leikurinn þróaðist.“

Finn líst mjög vel á veturinn sem er framundan og hópinn sem hann er með í höndunum.

„Mér líst sjúklega vel á þennan vetur. Ég er með meiriháttar hóp hérna, meðalaldurinn er 22 ára. Við erum ungir og graðir og viljum spila, berjast og djöflast og við notum leikinn í kvöld til að vera betri. Við erum byrjaðir að hugsa um næsta leik á móti Grindavík heima.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira