Erlent

Rússneskur flóttamaður fannst látinn í London

Samúel Karl Ólason skrifar
Glushkov sagði yfirvöld Rússlands hafa í raun haldið sér í gíslingu og notað hann til að reyna að þvinga Berezovsky til að selja sjónvarpsstöð sína ORT.
Glushkov sagði yfirvöld Rússlands hafa í raun haldið sér í gíslingu og notað hann til að reyna að þvinga Berezovsky til að selja sjónvarpsstöð sína ORT. Vísir/Getty
Rússinn Nikolai Glushkov, sem flúði frá Rússlandi og fékk hæli í Bretlandi fannst látinn í íbúð sinni í London. Fjölskyldumeðlimir hans fundu hann í íbúðinni í gærkvöldi en Glushkov var 68 ára gamall. Hann var náinn vinur auðjöfursins Boris Berezovsky, sem lenti í miklum deilum við Vladimir Putin og Roman Abramovic, eiganda Chelsea, og flúði til Bretlands þar sem hann dó við umdeildar aðstæður árið 2013.

Samkvæmt frétt Guardian liggur dánarorsök Glushkov ekki fyrir.

Vísir/GraphicNews
Hann vann á árum áður fyrir Berezovsky og þegar sá síðarnefndi flúði til Bretlands vegna deilna sinna við Putin og Abramovic var Glushkov handtekinn og ákærður fyrir peningaþvætti og svik. Hann sat inni í fimm ár og fékk svo hæli í Bretlandi. Í fyrra var hann dæmdur í Rússlandi fyrir að hafa stolið 123 miljónum dala.

Glushkov sagði yfirvöld Rússlands hafa í raun haldið sér í gíslingu og notað hann til að reyna að þvinga Berezovsky til að selja sjónvarpsstöð sína ORT.

Berezovsky kærði Abramovic fyrir að hafa svikið af sér fé og hélt því fram að þeir hefðu verið félagar í olíufyrirtækinu Sibneft. Glushkov bar vitni í málinu árið 2011 en dæmt var í vil Abramovic.

Árið 2013 fannst Berezovsky látinn á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar var hann sagður hafa hengt sig inn á baðherbergi. Vinir hans mótmæltu því þó og hefur Glushkov ávalt haldið því fram að hann hafi verið myrtur.

Til stuðnings máls síns nefndi Glushkov að Berezovsky hefði verið vinur Alexander Litvinenko, sem einnig dó við grunsamlegar kringumstæður í Bretlandi.

„Ég trúi ekki að þetta hafi verið sjálfsmorð. Of margir Rússar í útlegð hafa dáið,“ sagði Glushkov. Hann skilur eftir sig tvö fullorðin börn og fyrrverandi eiginkonu í Moskvu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×