Fótbolti

Aron Einar: Hugurinn er kominn á EM, þannig hugsum við

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fyrirliðinn lætur heyra vel í sér
Fyrirliðinn lætur heyra vel í sér vísir/vilhelm
Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson segir íslenska landsliðið geta gengið með kassann út og borið höfuðið hátt þrátt fyrir að hafa dottið út af HM í Rússlandi í kvöld.

„Við skildum allt eftir á vellinum og getum borið höfuðið hátt og ég vona að Íslendingar séu stoltir af okkur,“ sagði Aron Einar við Henry Birgi Gunnarsson í Rostov í leikslok.

„Fengum á okkur klaufalegt mark en við þurftum að skora. Við fórum í þriggja manna vörn og ætluðum að bæta aðeins í, það gekk vel og við fengum allavega færi. Þetta var endamarka á milli eins og gamli góði handboltaleikurinn.“

„Að vera í séns á að komast í 16-liða úrslit á HM, maður bjóst ekkert sérstaklega við því í þessum riðli sem við vorum í.“

Þegar Aron lítur til baka yfir mótið, hvað er það sem kemur upp í hugann?

„Svekkelsi af því við vildum meira. Það er orðið yfir þetta. Það er svo mikil trú í þessum hóp og mannskað. Við vissum að við værum að fara að spila á móti sterku króatísku liði en höfðum trú á því að við myndum vinna þá. Svekktir að hafa ekki náð lengra, okkur langar ekkert heim.“

Aron Einar var tæpur á því að ná mótinu en hann meiddist illa stuttu fyrir mót. Hann byrjaði samt alla leikina á mótinu og spilaði allan leikinn í dag. Henry Birgir bað fyrirliðann að vera alveg hreinsskilinn, var hann tilbúinn í leikina?

„Ertu bilaður? Nei, ég var aldrei alveg leikfær. Gamla góða „fake it til you make it.“ Þetta var þannig dæmi. En mér leið samt vel á vellinum og vissi að hugurinn og adrenalínið kæmi mér í gegnum þessa leiki en það dró alveg af mér. Þið sáuð það alveg og ég vissi það sjálfur að það myndi vera þannig í síðusut mínútunum.“

„Virkilega ánægður að hafa náð 90 mínútum í dag og ég fór í betra form með hverri mínútunni sem leið, en var klárlega aldrei alveg leikfær.“

„Að vera í þessari stöðu, að hugsa að ná ekki HM, það var erfið staða og maður var neikvæður á tímum en maður trúði að maður myndi ná þessu og stoltur að hafa tekið þátt í þessu. Svekkelsi að hafa ekki náð lengra, það er það eina í þessu.“

Gerist það ekki bara næst? „Já. Hugurinn er kominn á EM. Þannig hugsum við. Svekkjum okkur á þessu í kvöld en svo er bara undirbúningur á Þjóðardeildina og við ætlum klárlega aftur á EM.“

„Að vera á stórmóti er besta upplifun í heimi, kannski fyrir utan það að eignast börn,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×