Körfubolti

Harden valinn bestur í NBA og þessir fengu hin verðlaunin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden með verðlaunin sín.
James Harden með verðlaunin sín.
James Harden var í nótt kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta á síðustu leiktíð en hann átti frábært tímabil með liði Houston Rockets. Við sama tilefni voru verðlaunaðir þjálfari ársins, nýliði ársins, varnarmaður ársins, besti sjötti maður ársins og sá leikmaður sem bætti sinn leik mest.

Harden var stigahæsti leikmaður deildarinnar með 30,4 stig í leik og lið hans Houston Rockets vann 65 leiki. Harden var aðeins fjórði leikmaðurinn í NBA-sögunni til að skora að 30 stig í leik og hjálpa um leið liði að vinna 65 leiki. Hinir eru Stephen Curry, Michael Jordan (tvisvar) og Kareem Abdul-Jabbar.

Harden hafði verið tvisvar sinnum í öðru sæti á síðustu þremur árum en nú var ekki hægt að ganga framhjá honum. Auk stiganna (30,4 í leik) þá var hann með 8,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Ég hef verið að banka stanslaust á dyrnar síðustu fjögur árin. Nú rann þessi stund loksins upp. Á hverju ári hef ég reynt að bæta minn leik og það skiptir mig miklu máli að fá að halda þessum bikar,“ sagði James Harden á verðlaunaafhendingunni.

Harden hafði betur en LeBron James sem varð annar í kjörinu. James átti magnað tímabil þar sem hann var með 27,5 stig, 9,1 stoðsendingu og 8,6 fráköst að meðaltali í leik.  Harden vann yfirburðarsigur í kosningunni en 86 blaðamenn settu hann í fyrsta sætið en „aðeins“ fimmtán voru með James efstan.





 







Í þriðja sæti varð síðan Anthony Davis hjá New Orleans Pelicans sem fór á flug eftir að liðsfélagi hans DeMarcus Cousins meiddist. Davis var með 30,2 stig, 11,9 fráköst, 3,2 varin skot og 2,0 stolna bolta að meðaltali í leik eftir 28. janúar.  Russell Westbrook var með þrennu að meðaltali í leik en komst ekki inn á topp þrjú.

Hér fyrir neðan má sjá hverjir fengu hin verðlaunin.

Dwane Casey var kosinn þjálfari ársins en lið hans Toronto Raptors rak hann eftir tímabili. Casey fékk strax aftur starf hjá Detroit Pistons.

Ben Simmons hjá Philadelphia 76ers var kosinn besti nýliði tímabilsins en hann hafði betur gegn þeim Donovan Mitchell hjá Utah Jazz og Jayson Tatum hjá Boston Celtics.

Rudy Gobert hjá Utah Jazz var valinn besti varnarmaður deildarinnar en hann hafði betur á móti þeim Anthony Davis hjá New Orleans Pelicans og Joel Embiid hjá Philadelphia 76ers.

Lou Williams hjá LA Clippers var valinn besti sjötti maðurinn en hann vann þessi verðlaun einnig 2015 sem leikmaður Toronto Raptors.

Victor Oladipo hjá Indiana Pacers þótti hafa sýnt mestar framfarir á milli tímabila.





















 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×