Lífið

„Verður ekkert hönnuður með því að ákveða það bara“

Guðný Hrönn skrifar
Netverjar hafa undanfarið verið duglegir við að vekja athygli á því að úrin frá Nora Watches virðast fást á vefsíðum á borð við Aliexpress.
Netverjar hafa undanfarið verið duglegir við að vekja athygli á því að úrin frá Nora Watches virðast fást á vefsíðum á borð við Aliexpress.
Undanfarið hefur borið nokkuð á því að fólk sé að kaupa hræ­ódýra hluti, svo sem armbandsúr og skartgripi, í miklu magni frá Kína í gegnum vefverslanir og selja á Íslandi á uppsprengdu verði undir þeim formerkjum að um íslenska hönnun sé að ræða.

Nýjasta dæmið eru armbandsúrin frá Nora sem eru markaðssett sem íslensk hönnun. Á Facebook-síðu Nora segir meðal annars:

„Öll hönnun og vöruþróun á sér stað á vinnustofu á Íslandi.“

En netverjar hafa undanfarið vakið athygli á að úrin eru keypt í netverslun í Kína og að ekki sé um íslenska hönnun að ræða.



Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, segir þessa þróun slæma en huggar sig þó við að flestir séu að verða æ meðvitaðri um mikilvægi hönnunar og áhugasamari um vandaða hönnun.

„Þú verður ekkert hönnuður með því að ákveða það bara sjálfur,“ segir Halla.

„Það liggur yfirleitt þriggja til fjögurra ára nám að baki því að vera hönnuður. Hönnun er starfsgrein og það að vera hönnuður er ekki það sama og að búa eitthvað til. Það er mikill misskilningur,“ útskýrir Halla sem finnst stundum eins og orðið „hönnun“ sé notað ansi frjálslega.

Halla tekur dæmi: „Eins og sagan sem ég heyrði um daginn af konu sem kaupir ódýr teppi í IKEA og klippir þau á ákveðinn hátt. Svo leggur hún gríðarlega á þau og selur sem sína hönnun.“

„Annars held ég að vitundarvakningin sé að aukast og á undanförnum árum hefur áhugi á hönnun og virðing fyrir menntun verið að færast í vöxt.“ 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.