Erlent

Ólöglegt að bendla Pólverja við útrýmingarbúðir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hinar alræmdu útrýmingarbúðir í Auschwitz eru til að mynda í Póllandi.
Hinar alræmdu útrýmingarbúðir í Auschwitz eru til að mynda í Póllandi. VÍSIR/AFP
Öldungadeild pólska þingsins samþykkti lög í gærkvöldi sem gera það ólöglegt að bendla Pólverja við aðild að rekstri útrýmingarbúða nasista í Síðari heimsstyrjöld. Segi einhver að búðirnar sem hinir þýsku héldu í Póllandi hafi verið pólskar kann sá hinn sami að hljóta þriggja ára fangelsisdóm. Löggjöfin hefur þegar valdið víðtækum usla en Ísraelsríki sakar Pólverja um að hagræða sannleikanum og breiða yfir óþægilegan blett í sögu þjóðarinnar.

Upphaf síðari heimsstyrjaldar er almennt talin markast af innrás Þjóðverja inn í Pólland þann 1. september 1939. Þeir hernámu landið og komu upp fjölda útrýmingarbúða þar sem milljónir manna, þar af 3 milljónir pólskra gyðinga, biðu bana.

Fyrrnefnd lög taka þó ekki gildi fyrr en forseti landsins hefur samþykkt þau. Fastlega er þó búist við því að Andrzej Duda geri það án þess að hreyfa miklum mótbárum enda njóta lögin mikils stuðnings meðal pólskra þingmanna. Þannig greiddu 57 öldungadeildarþingmenn atkvæði með lögunum en 23 á móti samkvæmt talningu fréttastofu AFP.

Alþjóðlegar afleiðingar

Forseti Ísraels, Benjamín Netanyahu, hafði barist opinberlega fyrir því að pólska þingið myndi einbeita sér að öðrum málum en „hagræðingu á sögunni,“ eins og hann komst að orði. „Ég er hjartanlega andsnúinn lögunum. Þú getur ekki breytt sögunni og Helförinni er ekki hægt að neita,“ sagði Netanyahu.

Fyrrnefndur Duda gaf lítið fyrir ummæli ísraelska starfsbróður síns og sagði að Pólverjar hefðu fullan rétt á því að standa vörð um „söguleg sannindi.“

Bandaríkjamenn, sem lengi hafa verið dyggir stuðningsmenn Ísraelsríkis, hafa jafnframt farið fram á það við Pólverja að þeir endurskoði ákvörðun sína. Bandarísk stjórnvöld segja lögin grafa undan tjáningarfrelsinu og gætu orðið til þess að einangra Pólverja á hinu alþjóðlega sviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×