Íslenski boltinn

Stórkostlegt mark Katrínar gat ekki bjargað KR

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Katrín Ómarsdóttir átti frábært mark fyrir KR í kvöld
Katrín Ómarsdóttir átti frábært mark fyrir KR í kvöld vísir/getty
Stjarnan vann stórsigur á KR í Vesturbænum og Selfoss vann HK/Víking í nýliðaslag í Kórnum þegar 7. umferð Pepsi deildar kvenna lauk í kvöld.

Katrín Ómarsdóttir skoraði eitt af mörkum ársins á 51. mínútu í Vesturbænum þegar hún fékk sendingu niðri með jörðinni, lyfti boltanum upp í loftið í fyrstu snertingu og tók bakfallsspyrnu beint í netið.

Markið var þó frekar þýðingarlaust hvað úrslit leiksins varðar, Stjörnukonur höfðu skorað þrjú mörk í fyrri hálfleik og voru 3-0 yfir þegar markið kom. Katrín Ásbjörnsdóttir bætti svo við fjórða marki Stjörnunnar á 64. mínútu.

Mónika Hlíf Sigurhjartardóttir náði í annað sárabótamark fyrir KR í uppbótartíma en það gerði lítið og öruggur sigur Stjörnunnar.

Í Kópavogi var nýliðaslagurinn frekar rólegur þar til á 80. mínútu þegar Selfyssingar gerðu tvö mörk á jafn mörgum mínútu. Magdalena Anna Reimus kom Selfyssingum yfir og lagði svo upp mark fyrir Kristrúnu Rut Anotnsdóttur.

Varamaðurinn Alexis Kiehl bætti þriðja marki Selfoss við á 90. mínútu og gulltryggði sterkan útisigur.

Selfoss fór með sigrinum upp fyrir Grindavík í sjötta sæti deildarinnar. HK/Víkingur er í 8. sæti, stigi á undan KR í fallsæti. Stjarnan er enn í fjórða sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Val og Breiðabliki í öðru og þriðja sæti.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×