Erlent

Árásarmaðurinn í Toronto ákærður fyrir morð

Kjartan Kjartansson skrifar
Margir hafa skilið eftir blóm og skilaboð til minningar um fórnarlömb árásarinnar á Yonge-stræti í Toronto í gær.
Margir hafa skilið eftir blóm og skilaboð til minningar um fórnarlömb árásarinnar á Yonge-stræti í Toronto í gær. Vísir/AFP
Karlmaður á þrítugsaldri sem ók á fólk á sendiferðabíl í Toronto í Kanada í gær hefur verið ákærður fyrir tíu morð og þrettán morðtilraunir. Enn liggur ekki fyrir hvað manninum gekk til en lögreglan hefur ekki viljað vísa til gjörða hans sem hryðjuverks.

Maðurinn var leiddur fyrir dómara í dag. CNN segir að hann hafi virst með athygli á meðan ákærurnar voru lesnar upp. Hann kemur næst fyrir dómara 10. maí þegar tekin verður afstaða til þess hvort að hann geti fengið lausn gegn tryggingu.

Þrátt fyrir að lögreglan viti ekki enn hvers vegna maðurinn framdi ódæðið gæti Facebook-síða sem hún telur tilheyra honum varpað ljósi á hugarheim hans. Þannig segir CNN að hann hafi birt færslu í gær þar sem hann lofaði menn sem myrti sex og særði fjórtán í skot- og bílárás við Kaliforníuháskóla árið 2014.

Árásarmaðurinn í Kaliforníu lét til skarar skríða vegna persónulegrar gremju sinnar í garð kvenna. Hann var sagður hafa sökkt sér í öfgafulla hugmyndafræði um „karlréttindi“ sem gekk meðal annars út á trú á að konur vildu í raun ekki jafnrétti kynjanna og að þær hefðu verið heilaþvegnar með feminískum áróðri.


Tengdar fréttir

Viljaverk og mögulega hryðjuverk

Kanadíska lögreglan yfirheyrir nú ökumann sendiferðabifreiðarinnar sem ók í gegnum mannþröng á götum Toronto í gær. Tíu eru látnir og fimmtán liggja sárir á sjúkrahúsi eftir að hafa orðið fyrir bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×