Stjórn Hörpu bar upp tillögu um að hækka laun almennra stjórnarmanna um 7.500 krónur eða rúm 8% á aðalfundinum sem fór fram 26. apríl. Þóknun fyrir stjórnarsetu á þessu starfsári verður því 100.000 krónur á mánuði. Formaður stjórnar fær tvölfalda þá þóknun.
Tillagan var samþykkt að því er kemur fram í fundargerð aðalfundarins. Fjórir úr fyrri stjórn Hörpu voru kjörnir til að sitja áfram í stjórn á fundinum. Aðeins fulltrúar eigenda hússins, ríkisins og Reykjavíkurborgar, hafa atkvæðisrétt á aðalfundinum.
Vilhjálmur Egilsson, stjórnarmaður í Hörpu, segir við Vísi að laun fyrir setu í stjórn Hörpu hafi síðast hækkað árið 2013. Hann telji launahækkun stjórnarmanna nú langt innan ramma Salek-samkomulagsins svonefnda. Þóknunin fyrir stjórnarsetu í Hörpu sé lægri en það sem gerist hjá fyrirtækjum á markaði.
„Ég myndi nú halda að stjórnarlaunin hafi hækkað hvað minnst af þeim sem eru starfandi þarna í Hörpu, tala ekki um vinnumarkaðinn í heild,“ segir hann.

Forstjórinn hækkaði, þjónustufulltrúar lækkuðu
Fjarðrafok hefur verið í kringum launamál forstjóra og starfsmanna Hörpu að undanförnu eftir að í ljós kom að laun Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra, hækkuðu í rúma eina og hálfa milljón króna á mánuði eftir að ákvarðanir um laun forstjórans voru færð frá kjararáði um áramótin. Á sama tíma var þjónustufulltrúum Hörpu gert að taka á sig launalækkun.Nánast allir þjónustufulltrúarnir sögðu upp störfum vegna málsins í vikunni. Þá hætti verkalýðsfélagið VR öllum viðskiptum við Hörpu. Tónlistarkonan Ellen Kristjánsdóttir og menningarrýnirinn Illugi Jökulsson ákváðu einnig að sniðganga tónlistarhúsið vegna málsins.
Svanhildur fór í kjölfarið fram á við stjórnina að laun hennar yrðu lækkuð. Vísaði hún til mikilvægis þess að friður væri um starfsemi Hörpu. Formaður VR sagði þá beiðni engin áhrif hafa á ákvörðun sína um að hætta viðskiptum við Hörpu.