Erlent

Verður ekki refsað fyrir að fæða barn nauðgara síns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Imelda Cortez.
Imelda Cortez. EPA/RODRIGO SURA
Imelda Cortez, tvítug kona frá El Salvador sem átti fyrir höfði sér þungan fangelsisdóm vegna meints þungunarrofs, er nú laus úr haldi yfirvalda.

Mál Cortez vakti mikla athygli í vetur en hún fæddi barn í apríl í fyrra. Barnið fæddist heilbrigt og á lífi en vegna þess að Cortez var með mikla verki og blæðingar tilkynnti læknir hana til lögreglu vegna gruns um að hún hefði reynt þungunarrof.  Barnið feðraði sjötugur stúpfaðir hennar sem hafði misnotað hana frá 12 ára aldri.

Þungunarrof er ólöglegt undir öllum kringumstæðum í El Salvador og var Cortez ákærð fyrir tilraun til morðs. Hún hafði verið í haldi lögreglu síðan í apríl en var látin laus í gær eftir að kviðdómur í El Salvador úrskurðaði að hún hefði ekki reynt að myrða barn sitt.

Þá var hún jafnframt ekki fundin sek um frekari glæpi en hún hafði játað á sig vanrækslu á barni sínu til að reyna að komast hjá harðri refsingu.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar Cortez var sleppt úr haldi yfirvalda. Þá hefur stjúpfaðir hennar verið handtekinn og verður sóttur til saka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×