Skoðun

Nýsköpun og tækniþróun

Bryndís Haraldsdóttir skrifar
Mikilvægi nýsköpunar til aukinnar velferðar í samfélögum er löngu orðin viðurkennd staðreynd. Framlag nýsköpunar er ekki eingöngu mælt út frá auknum hagvexti eða samkeppnishæfni heldur einnig sem aukin félagsleg velferð. Hér á landi hafa komið upp öflug fyrirtæki og sprotar sem nýtt hafa sér þann stuðning og þá innviði sem í boði eru hér á landi. Hins vegar er hægt að gera enn betur og það erum við að gera og munum halda áfram að gera.

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Nýverið samþykkti Alþingi aukinn stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Annars vegar er um að ræða framlengingu og einföldun skilyrða til skattaívilnunar vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum. En sú aðgerð ætti að auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum að auka hlutafé og efla rekstur sinn. Hins vegar er um að ræða umtalsverða hækkun viðmiðunarfjárhæða skattafrádráttar eða endurgreiðslna vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Þessi aðgerð ætti að hvetja enn frekar til fjárfestingar í rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Allar umsagnir sem bárust þinginu við umfjöllun málsins voru jákvæðar og hvatt var eindregið til þess að málið yrði samþykkt. Mikil samstaða var líka um málið í þinginu og var frumvarpið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag

Nýsköpun dagsins í dag framleiðir hagvöxt komandi ára. Á Íslandi þrífst öflugt atvinnulíf og mikilvægt er að svo verði áfram. Það háir okkur þó enn að stoðir atvinnulífsins eru of fáar þó þeim hafi fjölgað. Leggja þarf ríka áherslu á hátækni-, upplýsinga- og upplifunariðnað og aðrar greinar sem ekki ganga á takmarkaðar náttúruauðlindir. Þróun á sviði líftækni er spennandi, sérstaklega í tengslum við hefðbundnar greinar eins og sjávarútveg og landbúnað. Í auðlindaatvinnugreinunum þarf líka að stunda nýsköpun sem felur í sér betri nýtingu á auðlindum og sjálfbærari vöxt. Einmitt þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld standi að baki nýsköpunarfyrirtækjum og búi þeim hagfelld starfsskilyrði og styðji þannig við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Tækniframfarir upplýsingaaldarinnar

Mörg af stærstu fyrirtækjum dagsins í dag voru ekki til fyrir 10 árum. Þetta eru fyrirtæki á sviði tækni og stafrænna lausna. Miklar líkur eru á að börnin starfi í framtíðinni við eitthvað sem ekki er til í dag. Hraðar tækninýjungar og breytt viðhorf munu valda miklum þjóðfélagsbreytingum á næstu áratugum. Við þurfum að tileinka okkur þessar breytingar og stjórnvöld þurfa að greiða fyrir þessum breytingum, bæði í atvinnulífinu og menntakerfinu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna er tilbúin í það verkefni og ég vænti þess að þingheimur allur styðji slíkar framfarir.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×