Erlent

Lýsir yfir neyðarástandi eftir brúarhrunið

Atli Ísleifsson skrifar
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, heimsótti Genúa í gær.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, heimsótti Genúa í gær. Vísir/AP
Ítalski forsætisráðherrann Giuseppe Conte hefur lýst yfir tólf mánaða neyðarástandi í Liguria-héraði í kjölfar þess 39 manns hið minnsta fórust þegar brú hrundi í borginni Genúa.

Conte lýsti því jafnframt yfir að hann muni losa um fimm milljónir evra úr ríkissjóði til að bregðast við harmleiknum.

Héraðsstjórnin í Liguria krafðist aðgerða af hálfu Ítalíustjórnar eftir slysið en mikil reiði hefur blossað upp í landinu þar sem almenningur á bágt með að trúa að svo stór brú hafi einfaldlega látið undan.

Björgunarlið telur ólíklegt að fleiri finnist á lífi í rústum Morandi brúarinnar þar sem um fjörutíu bílar hröpuðu um 45 metra í gærmorgun.

Farið fram á afsögn

Ekki liggur fyrir um orsök þess að brúin hrundi en margir hafa farið fram á afsögn forsvarsmanna fyrirtækisins sem sá um rekstur og viðhald brúarinnar.

Borgaryfirvöld í Genúa hafa lýst yfir tveggja daga sorg vegna slyssins. Sextán eru enn á sjúkrahúsi og er ástand tólf þeirra sagt alvarlegt.

Morandi-brúin var reist á sjöunda áratugnum en hraðbrautin A10 lá um hana.


Tengdar fréttir

Saka rekstraraðila brúarinnar um vanrækslu

Ríkisstjórn Ítalíu ætlar að rifta samningi sínum við fyrirtækið Autostrade, sem meðal annars hefur séð um rekstur brúarinnar sem hrundi í Genúa í gær.

Minnst 30 látnir í Genúa

Minnst 30 eru látnir eftir að langur kafli stórrar brúar í Genúa á Ítalíu hrundi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×