Innlent

Aðstæður gríðarlega erfiðar og mikið um sprengingar

Jóhann K. Jóhannsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Sigurður Lárus Fossberg, varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir aðstæður við stórbrunann í Hafnarfirði hafa verið gríðarlega erfiðar og miklar sprengingar á svæðinu þegar slökkvilið bar að garði.

„Það var mikill eldur í húsinu, efri hæðin var alelda. Það var hvasst og gríðarlegur reykur og neistaflug sem lagði hér yfir Hvaleyrarbraut og út á haf.“

Þá segir hann nokkuð hafa verið um sprengingar á svæðinu.

„Þegar fyrstu menn komu hérna á staðinn þá var mikið um sprengingar og við sáum allavega einn kút sem þeyttist upp í loftið og fór út á Hvaleyrarbrautina. Við lokuðum henni og það er stranglega bannað að vera hérna fyrir neðan húsið.“

Allt tiltækt slökkvilið var kallað á vettvang. Vísir/Vilhelm
Sigurður segir að það fyrsta sem slökkviliðið gerði við komuna hafi verið að kalla út allan tiltækan mannskap og ná í vatn til þess að ráða niðurlögum eldsins. Hann segir fólki ekki hafa stafað hætta af eldsvoðanum en slökkvilið var fljótt að loka svæðinu.

Aðspurður hvort eldurinn hafi náð að breiða úr sér í önnur hús segir Sigurður svo ekki vera.

„Ekki neitt. Við erum með þetta staðbundið í húsinu. Við fórum strax í varnarvinnu til að hindra útbreiðslu til næstu bygginga og það hefur tekist.“

Aðstæður voru gríðarlega erfiðar þegar slökkvilið mætti á svæðið. Vísir/Vilhelm
Þá segir hann að því fylgdu alltaf miklar hættur þegar svo stórt hús yrði bruna að bráð.

„Þetta er trésmíðaverkstæði og mikið af efni þarna inni, þannig að við gerðum okkur strax grein fyrir því að það þurfti mikið til þess að slökkva eldinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×