Innlent

Lögreglan minnir á að vopn hermannanna í Þjórsárdal verða óhlaðin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hermenn við Skarfabakka í Sundahöfn í gær.
Hermenn við Skarfabakka í Sundahöfn í gær. Vísir(Vilhelm
Í dag, föstudag og laugardag munu hópar bandarískra hermanna vera með gönguæfingar í Þjórsárdal. Hermenn þessir verða klæddir í hermannafatnað og bera vopn, óhlaðin, en engin skotfæri eru leyfð á þessari æfingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Æfingin í dag er hluti af stórri varnaræfingu á vegum NATO sem fram fer þessa dagana, að mestu leyti í Noregi en að einhverju leyti hér á landi. Stór herskip eru í Sundahöfn og sáust fjölmargir hermenn í miðbæ Reykjavíkur í dag.

Undanfarna daga hafa bandarískir hermenn verið með undirbúningsæfingar á Íslandi, þó aðallega á Reykjanesi og við Keflavíkurflugvöll.

Tilgangurinn með æfingunni í Þjórsárdal er að undirbúa hermennina til veru í slæmu veðri og kanna þolmörk þess í göngu með þungan búnað.

Ekki hafa verið settar upp lokanir vegna þessa og ekki gert ráð fyrir því að þetta trufli umferð að neinu leyti eða valdi neinu raski að sögn lögreglunnar á Suðurlandi. Hún mun vera með gæslu á svæðinu og aðstoða hermennina ásamt sérsveit Ríkislögreglustjóra.

Fjallað var um komu hermannanna í fréttum Stöðvar 2 í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×