Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að eiganda Euro Market sé gert að hafa á sér búnað svo unnt sé að fylgjast með ferðum hans á meðan hann sætir farbanni.
Eigandi Euro Market var handtekinn í viðamiklum aðgerðum lögreglu- og tollyfirvalda í desember síðastliðnum grunaður um aðild að alþjóðlegum glæpasamtökum sem hafa stundað peningaþvætti á Íslandi.
Eigandinn sætti einangrun og gæsluvarðhaldi um tíma vegna rannsóknar málsins. Framkvæmdastjóri Euro Market var einnig í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins í rúman mánuð en honum var sleppt úr haldi 15. janúar síðastliðinn þar sem aðild hans að málinu var talin nægilega upplýst.
Alls voru fimm Pólverjar handteknir í aðgerðum lögreglu 12. desember síðastliðinn þar sem lagt var hald á fasteignir, bíla og reiðufé að andvirði um 200 milljónir króna. Sömuleiðis var lagt hald á fíkniefni en söluvirði þeirra er talið nema um 400 milljónum króna.
Euro Market er pólsk smásöluverslun en þrjár verslanir undir því nafni hafa verið reknar á höfuðborgarsvæðinu, í Hamraborg, Stakkholti og Smiðjuvegi.
Er talið að Euro Market tengist þessu umfangsmikla máli sem varðar alþjóðlegan glæpahring sem teygir anga sína til Íslands, Póllands og Hollands.

