Farið var um víðan völl á fundinum sem má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. Guðmundur ræddi meðal annars um næstu leiki sem verður æfingamót í Noregi og svo leikir gegn Litháen í byrjun sumars um sæti á HM í Danmörku og Frakklandi á næsta ári.
„Það eru ofboðslega mikilvægir leikir á móti Litháen í júní þar sem við þurfum að ná góðum leikjum til að komast inn á næsta HM,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur gekkst við því að vissulega hefði verið mögulegt að fá sterkari andstæðinga en Litháen þegar dregið var í umspilið fyrir HM.
„Já, það er rétt,“ sagði hann og brosti. „Ég ætla ekki að fara að tala um Litháen eins og það sé besta lið í heimi en maður er þó búinn að læra það á þessum langa ferli og þið þekkið mig - ég ber alltaf virðingu fyrir andstæðingnum. Alltaf,“ sagði hann og hló.
„Það sama gildir um Litháen,“ sagði þjálfarinn enn fremur en íslenskir fjölmiðlamenn sem og aðrir sem hafa fylgst með störfum Guðmundar í gegnum árin vita að hann talar alltaf vel um næsta andstæðing sinn og varar iðulega við tal um vanmat ef það ber á góma.
Fundinn má sjá hér fyrir neðan en einnig var fylgst með honum í beinni textalýsingu, sem má lesa hér.