Bandaríkjaforsetinn Donald Trump hefur beðið varnarmálaráðuneytið að skipuleggja hersýningu í höfuðborg landsins, Washington.
Talsmaður Hvíta hússins staðfestir frétt Washington Post þessa efnis að Trump hafi í samtali við yfirmenn hersins farið fram á sýninguna fyrir um tveimur vikum síðan.
Fregnir herma að hann hafi heillast svo af hersýningu Frakka á Bastilludeginum í fyrra, þegar Trump sótti Frakkland heim, að hann hafi dreymt um sambærilega bandaríska hersýningu allar götur síðan.
Ekki er þó hefð fyrir því að Bandaríkjaher standi fyrir slíkum sýningum að tilefnislausu. Þær hafa hingað til aðeins farið fram þegar herinn fagnar stríðslokum, með sigur í farteskinu.
Einræði eða sóun
Demókratar á Bandaríkjaþingi líkja fyrirmælum forsetans við eitthvað sem tíðkast gæti í einræðisræðisríkjum. Nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins, flokks forsetans, eru heldur ekki hrifnir og segja að um peningaeyðslu sé að ræða.
Talsmaður Hvíta hússins sagði þó í gær að Trump vildi aðeins sýna þakklæti og aðdáun sína á starfsmönnum hersins í verki.
Varnarmálaráðuneytið vinnur nú að skipulagningu hátíðarinnar en mönnum greinir á um hversu langt sú vinna er komin. Ekki liggur heldur fyrir hvenær sýningin er fyrirhuguð.
Trump vill hersýningu eins og Frakkar

Tengdar fréttir

Trump gagnrýndur fyrir óviðeigandi ummæli við forsetafrú Frakklands
„Hún er í svo góðu líkamlegu formi. Falleg.“

Trump og Macron leika á als oddi í París
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á fréttamannafundi með forseta Frakklands í dag að allir í sporum sonar hans hefðu mætt á fund með rússneska lögmanninum sem lofaði skaðlegum upplýsigum um andstæðing hans Hillary Clinton í kosningabaráttunni í fyrra.

Léku Daft Punk-syrpu fyrir Trump og Macron á Bastillu-deginum
Lúðrasveit franska hersins bauð upp á heldur betur skemmtilegt prógramm við lok skrúðgöngu á Bastillu-deginum í París í dag.