Erlent

Fresta stefnuræðu Zuma

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku.
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Suður-Afríku ákvað í gær að fresta stefnuræðu forseta. Þetta tilkynnti Baleka Mbete, forseti þingsins, en sagði ekki hvenær ræðan yrði haldin í staðinn.

Stjórnarandstaðan fór fram á þennan frest vegna þess að greidd verða atkvæði um vantraust á Jacob Zuma forseta þann 22. febrúar næstkomandi. Þótti þeim ótækt að Zuma flytti ræðu sína, sem samkvæmt áætlun átti að vera á fimmtudaginn, þegar óljóst er hvort hann verði yfir höfuð forseti í mánaðarlok.

Mikill þrýstingur er á Zuma að segja af sér vegna spillingarmála sem hann hefur verið sakaður um. Hefur hann nú þegar misst formannssætið í Afríska þjóðarráðinu til Cyril Ramaph­osa. Í yfirlýsingu frá stofnun Nelsons Mandela í gær sagði að stjórnvöld hefðu stolið með kerfisbundnum hætti af suðurafrísku þjóðinni. Zuma þurfi að víkja fyrr eða síðar.

Þá dró einnig til tíðinda í gær þegar Jessie Duarte, varaformaður Afríska þjóðarráðsins sagði á blaðamannafundi að leiðtogar flokksins myndu taka stóra ákvörðun um „alvarlegt mál“ í dag. „Við höfum rætt framtíð Jacobs Zuma og þetta mál fer fyrir yfirstjórn flokksins á miðvikudaginn [í dag],“ sagði Duarte sem vildi ekki greina frekar frá málinu og sagði einungis að það væri mikilvægt almannahagsmunum.


Tengdar fréttir

Zuma á útleið?

Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, er nú undir sívaxandi þrýstingi um að segja af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×