Innlent

Lægðagangur í kortunum og rétt að fylgjast með spám

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekki er vitað hvar lægðin kemur að landinu.
Ekki er vitað hvar lægðin kemur að landinu. VÍSIR/VILHELM
Veðurstofan hvetur fólk til að fylgjast vel með veðurspám næstu daga því að útlit er fyrir lægðagang um helgina. Ennþá sé þó óvíst hvar lægðin mun koma að landinu og „minniháttar breytingar geta gefið miklar breytingar í veðurspá,“ eins og það er orðað.

Nokkrar gular viðvaranir eru í gildi fyrir daginn í dag, flestar á vesturhelmingi landsins, en þeim verður aflétt eftir því sem líður á morguninn.

Búast má við suðvestanátt, allhvassri eða hvassri í dag og munu henni fylgja él. Veður á þessum nóttum verður jafnframt ríkjandi framundir helgi að sögn Veðurstofunnar. Víða verður rigning eða slydda á láglendi austantil og snjókoma fyrir norðan. Þó mun stytta upp og létta til á Norðaustur- og Austurlandi eftir hádegi í dag. Hitinn verður um og undir frostmarki og þá ekki síst við ströndina.

Það verður svo heldur hægari vindur á morgun, einkum annað kvöld og frostið verður jafnframt vægt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Suðvestan 8-15 m/s og éljagangur, en bjartviðri eystra. Frost 0 til 10 stig, minnst með S- og A-ströndinni.

Á föstudag:

Suðvestlæg átt, allhvöss syðst, en annars hægari. Víða él, einkum V-til, en snýst í vaxandi austanátt S-lands um kvöldið og fer að snjóa þar. Frost um land allt.

Á laugardag:

Gengur líklega í allhvassa eða hvassa norðaustlæga átt með snjókomu eða éjagangi, einkum við N-ströndina. Dregur úr frosti í bili.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:

Útlit fyrir órólegt og kalt veður með úrkomu í öllum landshlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×