Bíó og sjónvarp

10 myndir sem þú getur horft á á Valentínusardaginn

Hægt að velja sér eina fyrir kvöldið.
Hægt að velja sér eina fyrir kvöldið.

Í dag er Valentínusardagur og þá munu eflaust margir verja kvöldinu undir sæng fyrir framan sjónvarpið, glápandi á rómantískar myndir. Kvikmyndafræðineminn Siguður Arnar Guðmundsson tók sig til og setti saman lista fyrir lesendur yfir tíu kvikmyndir sem honum þykir viðeigandi að horfa á á þessum degi ástarinnar.

Brokeback Mountain 2005

Ef eitthvað er sárara en óendurgoldin ást þá er það óréttlætanlega forboðin ást. Ástin sést vart fallegri á hvíta tjaldinu en í Brokeback Mountain.

Il Postino 1994

Ástarljóð eru vandmeðfarin en hvað ef þú færð hjálp frá færu skáldi? Íslensk ljóðskáld eru í mikilli sókn í dag og rómantíkin er aldrei langt undan. Leitið innblásturs meðal okkar færustu ljóðskálda og reynið sjálf.

Amélie 2001

Ef við erum ekki stórskrítin nú þegar getur leit okkar að ástinni leitt til þess, eða til mjög kyndugra kringumstæðna. Fögnum fjölbreytileikanum og afskrifum ekki óhefðbundnar leiðir til þess að finna hamingjuna með öðrum.

Before Sunrise 1995

Þú kynntist yndislegri manneskju sem gæti verið lífsförunautur þinn, en gallinn er sá að þið eruð bæði að yfirgefa borgina sem þið eruð í. Lofið því hvort öðru að hittast aftur eftir nokkra mánuði. Er nokkuð erfitt að standa við slík plön?

Her 2013

Gervigreind er ekki jafn langt komin í nútímasamfélagi og í Her en hvað ef þú gætir tengst „greind“ sem er jafnframt mótuð af og að þér?

Braveheart 1995

Frelsi og ást er meginumfjöllunarefni Braveheart, epískrar frásagnar um fórnirnar sem William Wallace færði fyrir land sitt og fólk, og ástina.

Paterson 2016

Paterson býr með unnustu sinni og lifir einföldu lífi; hann keyrir strætó, yrkir ljóð, fær sér bjór og elskar unnustu sína. Öll ljóð hans eru varðveitt í bókinni sem hann hleypir helst engum í.

Casablanca 1942

Klassík með Humphrey Bogart og Ingrid Bergman. Hún er fyrrverandi ástkona hans og fyrir rælni ratar hún inn á bar hans í Casablanca, með eiginmanni sínum, og uppgjör fortíðarinnar liggur fyrir með tilheyrandi tilfinningahita.

The Notebook 2004

Flestir hafa séð hana þessa enda ástæða til. Allavega tveggja klúta mynd sem gott er að hafa við höndina þegar rykkornin festast í augunum, sérstaklega undir lokin, einverra hluta vegna.

Before Sunset 2004

Framhald Before Sunrise þar sem þráðurinn er tekinn upp aftur en aldrei varð úr endurfundum parsins, nema nú fyrir tilviljun, níu árum seinna. Geta þau virt loforðin sem þau gáfu hvort öðru?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.