Erlent

Hopandi íshellur á báðum jarðarhvelum hraða hækkun sjávarborðs

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Vandi steðjar að mörgæsum á suðurhveli jarðar.
Vandi steðjar að mörgæsum á suðurhveli jarðar. Vísir/sigrún
Nokkur hröðun hefur orðið í hækkun sjávarborðs á undanförnum árum. Þetta er meginniðurstaða nýrrar rannsóknar sem birtist í vísindaritinu Proceedings of the National Academies í gær.

Vísindamennirnir áætla að sjávarborð muni hækka um að meðaltali sextíu sentímetra áður en öldin er úti. Ástæðan fyrir þessu er rakin til bráðnunar íss á Grænlandi og Suðurskautslandinu en þar hafa víðfeðmar og fornar íshellur hopað hratt á síðustu árum.

Niðurstöður vísindamannanna gefa til kynna að eldri líkön um hækkandi sjávarstöðu séu úrelt eða gefi að minnsta kosti heldur íhaldssama mynd af þeirri þróun sem blasir við.

Talið er að hækkandi sjávarstaða, með tilheyrandi flóðum, muni hafa meiriháttar áhrif á strandbyggðir vítt og breitt um heiminn.

Hnattræn sjávarstaða var stöðug í um þrjú þúsund ár, eða þangað til á 20. öldinni þegar bruni jarðefnaeldisneytis hófst í stórum stíl og hnattræn hlýnun af mannavöldum hófst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×