Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Peter S. Cayetano, utanríkisráðherra Filippseyja, í Genf en ráðherra gerði í ræðu sinni fyrir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðunum í gær stöðu mannréttinda á Filippseyjum að sérstöku umtalsefni. Ráðherra átti jafnframt tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Spánar, Kanda og Liechtenstein og ræddi einnig við embættismenn hjá SÞ.
„Það var gott að fá tækifæri til að ræða beint við starfsbróður minn á Filippseyjum og skýra betur út fyrir honum afstöðu Íslands til framgöngu filippeyskra stjórnvalda í baráttu gegn útbreiðslu fíkniefna. Þótt við Cayetano værum ekki sammála að öllu leyti var andrúmsloftið á fundinum jákvætt. Orð eru til alls fyrst,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum.
Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu kemur fram að það hafi verið Cayetano sem óskaði eftir fundinum. Þar lýsti hann meðal annars baráttu stjórnvalda á Filippseyjum gegn útbreiðslu eiturlyfja.
„Ísland talaði á síðasta ári fyrir hönd næstum fjörutíu þjóða og gagnrýndi mannréttindabrot stjórnvalda á Filippseyjum. Ítrekaði Guðlaugur Þór afstöðu Íslands í ræðu sinni í ráðinu í gær. Filippeyski ráðherrann kvaðst vonsvikinn yfir málflutningi Íslendinga. Stjórnvöld á Filippseyjum væru reiðubúin til að opna dyrnar fyrir þeim sem kynna vildu sér málin en væri mikilvægt væri að fólk myndaði sér ekki skoðun fyrirfram,“ segir í fréttinni.
Guðlaugur Þór lagði áherslu á að slíkt eftirlit ætti að fara fram fyrir tilstilli viðeigandi stofnana Sameinuðu þjóðana.
„Ef Ísland getur stuðlað að því Filippseyjar láti af mótstöðu sinni við heimsóknir fulltrúa mannréttindastofnana SÞ er sjálfsagt að við leggjum okkar lóð á vogarskálar í þeim efnum,“ sagði Guðlaugur Þór og bætti við að það væri skref í rétta átt að Filippseyingar væru reiðubúnir að opna dyrnar með þessum hætti.
Innlent