Kosningarnar eru einar þær mikilvægustu á stjórnmálaferli Erdogans og þær marka tímamót í tyrkneskum stjórnmálum. Ástæðan felst í þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta árs, þegar 51,41 prósent Tyrkja samþykkti að fela forsetanum aukin völd. Í Tyrklandi verði sem sagt ekki lengur þingræði, líkt og tíðkast á Íslandi, heldur forsetaræði, líkt og tíðkast í Bandaríkjunum. Þetta nýja fyrirkomulag tekur gildi eftir komandi kosningar, 24. júní.
Upphaflega áttu kosningar að fara fram í nóvember á næsta ári. Erdogan ákvað hins vegar í apríl síðastliðnum að þeim þyrfti að flýta til að greiða fyrir upptöku forsetaræðis.
Samkvæmt könnun sem Gezici birti í gær mælist kosningabandalag AKP með Þjóðernishyggjuhreyfingunni (MHP) með 48,7 prósent og myndi AKP þar með missa hreinan meirihluta sinn á þinginu. Kosningabandalag Repúblikana (CHP), Góða flokksins (Iyi) og Hamingjuflokksins (SP) mælist með 38,9 prósenta fylgi.

Þegar litið er til forsetakosninganna mælist Erdogan með 48,7 prósenta fylgi, litlu meira en hann hefur að meðaltali mælst með undanfarnar vikur. Muharrem Ince, forsetaframbjóðandi Repúblikana, mælist með 25,8 prósenta fylgi og Meral Aksener, frambjóðandi Góða flokksins, með 14,4 prósent.
Ef svo fer að enginn frambjóðandi fær meira en helming greiddra atkvæða, eins og kannanir benda til að verði raunin, verður kosið aftur á milli tveggja vinsælustu. Kannanir benda til þess að mjótt yrði á munum á milli Erdogans og næstvinsælasta frambjóðandans, hvort sem það verður Aksener eða Ince. Ný könnun SONAR sýnir til dæmis að forsetinn myndi fá 53,7 prósent gegn 46,3 prósentum Ince en ný könnun REMRES sýnir Erdogan með 51,2 prósent gegn 48,8 prósentum Aksener.
Murat Gezici, sem fer fyrir hópnum sem fyrrnefndar kannanir eru nefndar eftir, sagði við Reuters í gær að í erfiðustu forseta- og þingkosningar undanfarinna tuttugu ára stefndi. Kannanir Gezici hafa verið einar þær nákvæmustu í undanförnum kosningum.
Trúlega má einna helst rekja erfiðleika forsetans og AKP til Meral Aksener og Góða flokksins. Aksener var áður innanríkisráðherra í stjórn Necmettins Erbakan árin 1996 og 1997. Þá var hún síðast þingmaður fyrir MHP árin 2007 til 2015 og fyrsti varaforseti þingsins nær allan þann tíma.
MHP stendur flokki forsetans nærri um þessar mundir. Stuðningur flokksins við áðurnefndar stjórnarskrárbreytingar varð til þess að Aksener sagði sig úr flokknum og stofnaði Góða flokkinn ásamt ýmsum fyrrverandi meðlimum annarra flokka, einkum MHP og CHP. Hún nýtur töluverðs persónufylgis eins og sést þegar henni er att saman við forsetann í könnunum. Mældist Góði flokkurinn með þó nokkurt fylgi jafnvel áður en honum var gefið nafn.