Jurgen Klopp segir Þjóðadeild UEFA vera tilgangslausustu keppni í heimi og er ósáttur með að missa leikmenn sína í landsliðsverkefni.
Eftir leiki helgarinnar fóru landsliðsmenn víðs vegar um Evrópu til liðs við landslið sín og undirbúa sig flestir undir leik í Þjóðadeild UEFA á næstu dögum.
Liverpool hefur spilað þétt síðustu daga, liðið spilaði sjö leiki á 23 dögum. Lærisveinar Klopp komu ágætlega undan þessari erfiðu leikjadagskrá og eru jafnir Manchester City og Chelsea að stigum á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
„Því miður eru strákarnir að fara í burtu og þurfa að spila í Þjóðadeildinni, tilgangslausustu kepnni í heimi fótboltans,“ sagði Klopp eftir markalaust jafntefli við Manchester City í gær.
„Við vonumst eftir því að þeir komi til baka heilir heilsu til að spila í þessum auðveldu keppnum, úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu.“
„Við þurfum að fara að hugsa um leikmennina. Ef ég hringi í einhvern landsliðsþjálfara og bið hann um að hvíla einn eða tvo leikmenn segist hann vera undir pressu útaf Þjóðadeildinni. Ég veit ekki alveg hvaða verðlaun eru í boði í þeirri keppni en það er víst einhver úrslitaleikur næsta sumar, það er allt og sumt,“ sagði Jurgen Klopp.
Íslenska landsliðið spilar leik í Þjóðadeildinni eftir viku, Sviss mætir á Laugardalsvöll 15. október.
Fótbolti