Erlent

Gæti verið öflugasti fellibylur svæðisins í 60 ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Norður-Karólínu árið 1954 þegar fellibylurinn Hazel fór þar yfir.
Frá Norður-Karólínu árið 1954 þegar fellibylurinn Hazel fór þar yfir. Vísir/AP
Síðast þegar jafn öflugur fellibylur og Florence lenti á miðri austurströnd Bandaríkjanna, við Norður- og Suður-Karólínu, var Dwight Eisenhower í Hvíta húsinu. Búist er við því að vindhraði verði allt að 209 kílómetrar á klukkustund, gífurleg rigning mun fylgja Florence og óttast er að umfangsmikil flóð muni einnig skella á ströndinni.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og fjölda fólks hefur verið gert að yfirgefa heimili sín.

Sjá einnig: Neyðarástand og rýmingar vegna Florence sem nálgast ört



Norður-Karólína hefur einungis einu sinni áður orðið fyrir fjórða stigs fellibyl frá því áreiðanlegar mælingar hófust á sjötta áratug nítjándu aldar. Það var fellibylurinn Hazel sem skall á ríkinu árið 1954. Florence gæti verið fimmta stigs fellibylur þegar hann nær landi.

Samkvæmt upprifjun AP fréttaveitunnar dóu minnst nítján manns og er áætlað að um 15 þúsund byggingar hafi eyðilagst. Í bænum Oak Island eyðilögðust 352 af 357 byggingum bæjarins.



Nú eiga íbúar Karólínuríkjanna von á gífurlegum hamförum og eru milljónir að undirbúa sig sem best þeir geta fyrir Florence sem búist er við að nái landi á fimmtudaginn. Ríkisstjóri Suður-Karólínu hefur gert öllum íbúum strandlengju ríkisins, sem áætlað er að séu um milljón, að yfirgefa heimili sín. Hið sama hefur verið gert á berskjölduðum svæðum í Norður-Karólínu og Virginíu.



Það gæti þó reynt fólki erfitt að leita skjóls því ef Florence hægir á sér við strendur Bandaríkjanna er búist við því að gífurleg rigning verði í fjöllunum vestur af strandlengjunni og það muni leiða til mikilla flóða og jafnvel aurskriða á milli strandarinnar og fjallanna.

Þá búast veðurfræðingar við því að Florence muni vera yfir svæðinu um nokkurn tíma og íbúar sem búa jafnvel langt frá ströndinni þurfi að vera undirbúnir fyrir viðvarandi rafmagnsleysi, auk áðurnefndra flóða.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×