Erlent

„Hataðasti maður internetsins“ brast í grát og dæmdur í sjö ára fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Martin Shkreli.
Martin Shkreli. Vísir/EPA
Martin Shkreli, sem gengið hefur undir viðurnefninu „hataðasti maður internetsins“ var í dag dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fjársvik. Shkreli sveik fé úr fjárfestum tveggja sjóða sem hann stofnaði. Hann varð frægur að endemum þegar hann keypti framleiðslurétt á alnæmislyfi og hækkaði verðið umsvifalaust um rúm 5.000% árið 2015.

Shkreli brast í grát í dómssal í dag þegar hann bað fjárfesta afsökunar.

„Ég vil að allir sem komu hingað í dag til að styðja mig viti að sá eini sem ég kenni um er ég sjálfur. Ég felldi Martin Shkreli,“ sagði Shkreli, samkvæmt AP fréttaveitunni. Hann sagði fjárfestana sem hann sveik eiga betra skilið og að hann ætlaði sér að bæta fyrir mistök sín og læra af þeim.



Shkreli hefur þegar verið í fangelsi í um sex mánuði og verða þeir dregnir af dómnum. Dómarinn staðhæfði að niðurstaða sín sneri ekkert að hinni umdeildu persónu sem Shkreli er, eins og hann hafði sjálfur haldið fram. Þess í stað snerist hún alfarið um alvarlega glæpi hans.

Fyrr í vikunni úrskurðaði dómarinn að ríkið myndi leggja hald á um 7,3 milljónir dala sem hann á og einstaka Wu-Tang Clan plötu sem hann segist hafa keypt á tvær milljónir.


Tengdar fréttir

Martin Shkreli fundinn sekur um fjársvik

Martin Shkreli, fyrrverandi forstjóri lyfjafyrirtækis sem hækkaði verð á alnæmislyfi upp úr öllu valdi, hefur verið dæmdur fyrir fjársvik.

Shkreli í steininn fyrir tíst um Hillary Clinton

Fjárfestirinn sem ávann sér almannahatur þegar hann stórhækkaði verð á alnæmislyfi bauð fylgjendum sínum á Twitter 5.000 dollara ef einhver þeirra gæti fært honum lokk og hársekk af höfði Hillary Clinton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×