Erlent

25 fjölmiðlamenn dæmdir í fangelsi í Tyrklandi

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Andstæðingar Erdogan telja að með þessum aðgerðum sé forsetinn að taka pólitíska andstæðinga sína úr umferð.
Andstæðingar Erdogan telja að með þessum aðgerðum sé forsetinn að taka pólitíska andstæðinga sína úr umferð. Vísir/AFP
Tuttugu og fimm fjölmiðlamenn voru í dag dæmdir í fangelsi í Tyrklandi. Þeim er gert að sök að tengjast uppreisnarhópum sem skipulögðu valdaránstilraunina þar í landi í júlí árið 2016. BBC greinir frá.

Tuttugu og þrír af þeim dæmdu fengu dóm sem hljóðar upp á sjö og hálft ár fyrir að tengjast hryðjuverkasamtökum. Tveir fengu vægari refsingu. Þau sakfelldu eru sögð tengjast klerkinum Fethullah Gulen sem tyrknesk yfirvöld segja hafa verið á bak við valdaránstilraunina. Gulen hefur þvertekið fyrir að tengjast henni. 
Gulen er í útlegð í Bandaríkjunum og hafa yfirvöld þar ekki viljað framselja hann án sannana.

Flestir þeirra seku hafa unnið fyrirdagblaðið „Zaman“ sem tyrknesk stjórnvöld tóku yfir árið 2016. Síðan valdaránstilraunin átti sér stað hafa tyrknesk yfirvöld fangelsað rúmlega 50.000 einstaklinga og um 150.000 hafa verið rekin úr vinnum sínum.

Kona mótmælti handtöku tyrkneska blaðamannsins Ahmet Altan í síðasta mánuði.Vísir/AFP
Aðgerðir yfirvalda í kjölfar tilraunarinnar hafa vakið upp áhyggjur um framtíð réttarríkisins í Tyrklandi. Þá hafa ýmis samtök sem standa vörð um réttindi blaðamanna gagnrýnt aðgerðir Tyrkja harðlega. CPJ sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem brýnt var fyrir tyrkneskum yfirvöldum að sleppa fjölmiðlamönnunum úr haldi.

Murat Aksoy, einn af hinum handteknu, segir að fréttir hans hafi verið skrifaðar með það fyrir augum að gagnrýna og fyrir það eigi ekki að refsa honum. „Það er ótækt að refsa mér einfaldlega fyrir að vera blaðamaður,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Tyrkir handtóku ellefu fyrir að dreifa hryðjuverkaáróðri

Tyrkir grípa til aðgerða gegn þeim sem styðja Kúrda. Hafa fellt 268 Kúrda í Sýrlandi frá því á laugardag og lofa að halda áfram. Enn deilt um efnavopnaárásir sunnar í Sýrlandi. Bandaríkin segja Rússa bera ábyrgð á efnavopnaárásum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×