Innlent

Embla segir frá því þegar henni var nauðgað á fjórtánda aldursári af frjálsíþróttamanni

Birgir Olgeirsson skrifar
Embla er hér í hvítri treyju Keflavíkurliðsins í bikarúrlistaleik gegn Njarðvík síðastliðinn laugardag þar sem hún var valin maður leiksins.
Embla er hér í hvítri treyju Keflavíkurliðsins í bikarúrlistaleik gegn Njarðvík síðastliðinn laugardag þar sem hún var valin maður leiksins. Vísir/Vilhelm
Embla Kristínardóttir, landsliðskona í körfubolta, segir frá því hvernig henni var nauðgað þegar hún var á fjórtánda aldursári af manni frjálsíþróttamanni um tvítugt.

Embla, sem er leikmaður Íslandsmeistara Keflavíkur í Domino´s deild kvenna í körfubolta, segir frá þessu í viðtali við Ríkisútvarpið. Síðastliðinn laugardag varð Embla bikarmeistari með Keflavík en hún var valin besti leikmaður bikarúrslitaleiksins.

Þar kemur fram að maðurinn var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barn en fékk skilorðsbundinn dóm.

Embla segir málið ekki hafa farið af stað fyrr en ári eftir að henni var nauðgað því hún þorði ekki að segja neinum frá því. Það var ekki fyrr en hún hætti að mæta í skólann að móðir hennar varð vör við breytingu á hegðun hennar og þá fór kærumál af stað.

Hún segir heimabæ sinn Keflavík hafa klofnað vegna málsins og að hún hafi þurft að þola mikið einelti vegna þess.

Embla segist hafa verið dæmd fyrir að vera drusla og eftir fékk miða í skáp sinn þar sem hún var beðin um að leggja þetta mál niður. Eftir íþróttatíma var fötunum hennar hent í sturtuna og úlpa hennar hvarf margoft.

Hún segir lítið hafa verið gert í málinu eftir að dómurinn féll, maðurinn fékk að halda áfram að æfa með sínu liði, en þau æfðu ekki hjá sama íþróttafélagi. Þurfti hún meðal annars að spila úrslitaleiki í íþróttahúsinu þar sem maðurinn æfir og það hafi reynst henni erfitt.

RÚV segir mál Emblu ekki hafa verið á meðal þeirra 62 frásagna íþróttakvenna af kynferðislegu ofbeldi og áreiti. Embla segir í samtali við RÚV að þessar sögur hafi ekki komið henni á óvart og að bætir við að henni finnist íþróttafélögin ekki taka nógu skýra afstöðu í þessum málum.

Sjá viðtal RÚV í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Sá fimmtándi kominn í safn Keflvíkinga

Keflavík batt enda á bikarævintýri Njarðvíkur með sigri í úrslitaleik Maltbikars kvenna, 74-63. Leikurinn var jafn lengi en í seinni hálfleik sýndu Keflvíkingar styrk sinn og sigu fram úr. Keflavík stefnir á að vinna tvöfalt annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×