Viðskipti innlent

Íslenska ríkið sýknað af kröfu um franskar kartöflur

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkið lagði 76% toll á innflutning franskra kartaflna sem innflutningsfyrirtækin voru ekki sátt við.
Ríkið lagði 76% toll á innflutning franskra kartaflna sem innflutningsfyrirtækin voru ekki sátt við. Vísir/Getty
Hæstiréttur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfum innflutningsfyrirtækjanna Haga og Innes um endurgreiðslu á verðtolli af frönskum kartöflum. Fyrirtækin töldu að 76% tollur á innflutning kartaflnanna stæðist ekki stjórnarskrá.

Innes krafðist tæplega þrjátíu milljóna króna en Hagar um tæplega 71 milljónar vegna tollsins sem fyrirtækin töldu að þau hefðu greitt ranglega frá árinu 2010 til 2014. Fyrirtækin töldu að réttlæting tollsins af hálfu stjórnvalda fælist í verndarstefnu gagnvart íslenskum landbúnaði.

Líkt og Héraðsdómur Reykjavíkur í september árið 2016 féllst Hæstiréttur ekki á þau rök. Taldi dómurinn að tollurinn væri í reynd skattur sem Alþingi hefði heimild til að setja.

Sýknaði Hæstiréttur því ríkið af kröfum fyrirtækjanna tveggja og dæmdi þau til að greiða ríkinu 700.000 hvort í málskostnað.

Félag atvinnurekenda var afar ósátt við dóm Héraðsdóms á sínum tíma. Krafðist félagið þess að ríkið felldi niður tollinn á franskar kartöflur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×