Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorl. - Haukar 93-85 │ Gríðarsterkur sigur Þórs á toppliðinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Haukar rústuðu Þórsurum í fyrri leik liðanna í október, 96-64. Þórsarar náðu fram hefndum í dag.
Haukar rústuðu Þórsurum í fyrri leik liðanna í október, 96-64. Þórsarar náðu fram hefndum í dag. Vísir/Anton
Þór Þorlákshöfn vann gríðarsterkan sigur á toppliði Hauka í Domino’s deild karla í körfubolta á heimavelli í kvöld. Haukar mættu til Þorlákshafnar með átta deildarsigra í röð á bakinu en fengu að finna fyrir heimamönnum strax frá fyrstu mínútu.

Þórsarar voru með yfirhöndina framan af leiknum, þó hann væri nokkuð jafn. Þeir náðu þó að komast í 12 stiga forystu snemma í öðrum leikhluta. Þá hins vegar vöknuðu Haukarnir aðeins og komust aftur inn í leikinn og komust yfir. Þeir fóru með tveggja stiga forystu 41-43 í hálfleikinn.

Seinni hálfleikur var svo járn í járn frá upphafi til enda. Það var gríðarleg barátta og bæði lið spiluðu af mikilli hörku og höfðu dómarar leiksins í miklu að mæða, en samtals voru dæmdar 42 villur í leiknum, þar af 24 á Haukaliðið.

Liðin skiptust á að vera með forystu út allan þriðja og fjórða leikhluta og var gríðarleg spenna í húsinu. Það var ekki fyrr en undir blálokin að Þórsarar náðu nokkurra stiga forystu og náðu að lokum að sigla heim sigri, lokatölur 93-85.



Þór Þ.:
Emil Karel Einarsson 28, DJ Balentine II 17/6 fráköst/5 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 16/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 14/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 13, Magnús Breki Þórðason 4, Þorsteinn Már Ragnarsson 1.

Haukar: Paul Anthony Jones III 24/8 fráköst, Breki Gylfason 19/5 fráköst, Kristján Leifur Sverrisson 11/5 fráköst, Finnur Atli Magnússon 10/5 fráköst, Kári Jónsson 10/4 fráköst/9 stoðsendingar, Hjálmar Stefánsson 5/6 fráköst, Haukur Óskarsson 4/5 fráköst, Emil Barja 2.



Afhverju vann Þór?


Þeir mættu einbeittir til leiks og spiluðu af krafti. Skotnýting þeirra í fyrri hálfleik, þá sérstaklega í fyrsta leikhluta og byrjun annars, var framúrskarandi og það virtist allt detta ofan í hjá þeim.

Þá hjálpaði til að Haukar voru ekki að spila sinn besta leik, en það verður ekki tekið af Þórsörum að þeir unnu fyrir sigrinum.

Hverjir stóðu upp úr?

Ólarnir voru mjög góðir, Óli Ragnar Alexandersson stjórnaði leiknum eins og herforingi og Ólafur Helgi Jónsson var gríðarlega duglegur í varnarvinnunni sem og sókninni. Þá átti Emil Karel Einarsson frábæran leik og setti niður mikið af mikilvægum þristum.

Hjá Haukum má helst nefna Breka Gylfason og Paul Jones hinn þriðja.

Hvað gekk illa?

Að spila löglega vörn. Eins og ég kom inn á áðan var mikið af villum dæmt og það var varla að liðin komust í gegnum eina sókn án þess að fá dæmda á sig villu. Annars voru langskotin hjá Haukum ekki alveg að detta niður heldur.

Hvað gerist næst?

Þórsarar fara í Ásgarð og mæta Stjörnunni að viku liðinni. Haukar fara aftur á ferðalag, í þetta sinn út á Reykjanes þar sem Keflvíkingar taka á móti þeim.

Einar Árni: Löngunin til fyrirmyndar

„Virkilega öflugur liðssigur þar sem við fengum myndarlegt framlag víða,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, eftir leikinn.

„Mér fannst við spila á löngum stundum virkilega góða vörn á móti frábæru Haukaliði. Baráttuandinn og krafturinn, löngunin í að vinna, til fyrirmyndar í dag.“

Það var mikil harka í leiknum í dag sem kom Einari þó ekki mikið á óvart.

„Bæði lið þurftu á þessum tveimur stigum að halda og vildu spila physical. Við erum búnir að tapa ansi oft á Haukum á þessum þremur árum sem ég hef þjálfað þetta lið og oftar en ekki bara vegna þess að við höfum ekki mætt þeim í líkamlegum styrkleika.“

„Við höldum þeim í 19 stigum í öðrum leikhluta en þá missum við tempó og klúðrum aragrúa af vítum. Sem dæmi er DJ að spila veikur og gat ekki beitt sér en þá stíga aðrir menn upp. Emil var geggjaður í seinni hálfleik og hrikalega ánægður með leikstjórnina hjá Óla Ragnari.“

Einar sagði liðið löngu búið að átta sig á því að það sé í bullandi fallbaráttu og sé í raun ekki að horfa til sætis í úrslitakeppninni, þó það sé enn raunhæft markmið.

„Hver og einn einasti leikur er úrslitaleikur til að þoka okkur frá fallbaráttunni. Við erum löngu hættir að tala um einhverja úrslitakeppni. Raunhæft markmið, en það er markmið númer eitt að koma okkur frá þessum liðum sem eru fyrir neðan okkur,“ sagði Einar Árni Jóhannsson.

Ívar: Skelfileg vörn allan leikinn

Þjálfari Hauka, Ívar Ásgrímsson, var mjög óánægður með dómgæsluna í kvöld á meðan leiknum stóð. Hann vildi þó lítið tjá sig um hana eftir leikinn.

„Við vorum lélegir og við skulum láta þar við sitja. Þeir (dómararnir) voru samt langt frá því að vera góðir. Ég held sökin sé okkar en ekki þeirra.“

„Við vorum ekki tilbúnir í byrjun. Vorum lélegir í fyrri hálfleik og lykilmenn að klikka. Vörnin okkar er skelfileg í kvöld og við gefum þrist. Við vissum að við værum að spila á móti þriggja stiga skotliði en þeir setja þrist á eftir þrist. Við vorum bara slakir.“

Eftir átta leikja sigurgöngu töpuðu Haukar í undanúrslitum Maltbikarsins í síðustu viku. Ívar vildi ekki meina að það hafi haft áhrif á sína menn í dag.

„Ég hefði haldið að það hefði öfug áhrif, menn kæmu tilbúnir í leikinn og vildu sanna eitthvað. En við vorum slakir, Þórsararnir spiluðu vel og börðust. Þeir áttu sigurinn skilið.“

Aðspurður sagðist hann ekkert jákvætt geta tekið út úr leiknum í kvöld.

Emil Karel: Þurfti að stíga upp

„Við vorum byrjaðir að horfa svolítið niður fyrir okkur og við þurftum á þessum sigri að halda,“ sagði Emil Karel Einarsson, leikmaður Þórs, eftir leikinn.

„Gott fyrir liðið að vinna þennan leik til að halda okkur frá fallbaráttunni.“

Emil átti mjög góðan leik í dag og setti góð þriggja stiga skot niður akkúrat þegar liðið þurfti þeirra sem mest.

„Já ég vissi að ég þyrfti að stíga upp þegar DJ var orðinn veikur og Halldór í banni. Tveir menn sem eru með boltann allan tímann, þá þurfti maður að stíga upp og taka af skarið.“

„Við erum á heimavelli og þurfum að ná okkur í sigur, sem betur fer náðum við því í dag,“ sagði Emil Karel Einarsson.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira