Skoðun

Sterkt móðursjúkrahús

Svandís Svavarsdóttir og heilbrigðisráðherra. skrifa
Á mínum fyrstu dögum sem heilbrigðisráðherra hef ég átt þess kost að heimsækja nokkrar helstu stofnanir heilbrigðiskerfisins og stefni að því að ná að ljúka þeirri yfirferð á næstu vikum. Landspítalinn sjálfur, móðursjúkrahúsið, gegnir meginhlutverki sem bakhjarl heilbrigðisþjónustu um land allt. Þetta hlutverk tekur Landspítalinn mjög alvarlega og vill efla það með því að bæta aðgengi landsmanna allra að þjónustu sinni og með því að fara með sérfræðiþjónustu út um land.

Landspítalinn er nú öflugri en hann hefur nokkurn tíma verið. Búið er að taka upp fjölda nýrra meðferða og aðgerða og verið að sinna miklu veikara fólki, með betri árangri, en áður. Jafnframt er spítalinn að sinna miklu fleirum en nokkurn tímann áður.

Á spítalanum eru hátt í tvö hundruð deildir og einingar og starfsmenn rúmlega 5.100 talsins úr fjölmörgum starfsgreinum enda sinnir spítalinn fjölmörgum verkefnum auk hinnar hefðbundnu heilbrigðisþjónustu. Eldhús, þvottahús, saumastofa og dauðhreinsun; allt þarf að virka. Og gerir það.

Spítalinn hefur lagt áherslu á öryggis- og gæðamál allt frá 2011 og hefur dregið úr sóun og sparað fé umtalsvert, stytt biðlista og bætt árangur. Þessi árangur hefur meðal annars verið mældur í lifun eftir kransæðaaðgerðir og ótrúlega lágri spítalasýkingartíðni.

Einnig hefur spítalinn nú sinnt sívaxandi fjölda ferðamanna sem veikjast og slasa sig og er stór þáttur í því að Ísland geti þróast áfram sem ferðamannaland með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á þjóðartekjur. Loks sinnir spítalinn hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús þar sem heilbrigðisstéttir njóta leiðsagnar, öðlast reynslu og menntun til að geta sinnt sínum verkefnum í fyllingu tímans sem þátttakendur í vaxandi heilbrigðisþjónustu.

Það er einstaklega góð tilfinning að finna fyrir faglegum metnaði, styrkri stjórn, öflugu starfsfólki og skýrri forystu í þessari lykilstofnun í íslensku samfélagi. Gott samfélag þarf gott heilbrigðiskerfi og gott heilbrigðiskerfi þarf sterkt móðursjúkrahús. Landspítalinn er slík stofnun. Ég hlakka til áframhaldandi sóknar í þágu heilbrigðisþjónustunnar þar sem Landspítalinn gegnir meginhlutverki.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×